Tilfellarannsókn

 

Árið 2012 hófst þróunarverkefni í Salaskóla í Kópavogi sem miðaði að aukinni notkun spjaldtölva í skólastarfi og eftir sveitarstjórnakosningarnar 2014 var ákveðið að efla enn frekar tæknivæðingu grunnskólanna. Þetta fól meðal annars í sér að kennarar á mið- og unglingastigi fengu spjaldtölvur til einkanota.
 
Með innleiðingu spjaldtölva í skóla var stefnt að því að efla skapandi skólastarf og bjóða nemendum upp á fjölbreytt námsumhverfi sem gæti mætt fjölbreyttri getu og ólíkum þörfum nemenda.
 
Markmið mitt í þessarri MA-meistaraprófsritgerð var að skoða hvernig kennurum gengur að nota spjaldtölvurnar við skapandi skólastarf og hvort spjaldtölvurnar nýtist lesblindum nemendum við námið. Einnig vakti fyrir mér að skoða hvort rafbækur væru að taka við af hinum hefðbundnu námsbókum. 
 
Framkvæmd var tilfellarannsókn í einum skóla í Kópavogi þar sem ég notast við eigindleg gögn úr viðtölum sem ég tók við sex kennara. Í fræðikaflanum er fjallað um innleiðingu spjaldtölva í Kópavogsbæ. Skoðað hver skilgreining á rafbók er, ástæða og einkenni lesblindu, sköpun og læsi í grunnþáttum menntunar og kenningar heimspekingsins og menntafrömuðarins John Dewey um verkhyggju.
 
 
Niðurstöður sýna að spjaldtölvur eru góð viðbót við skapandi skólastarf, en geta líka orðið til þess að verkefni verða einhæf ef kennarar ná ekki góðum tökum á spjaldtölvunum.
 
Sumir viðmælendur virtust ekki hafa mikinn áhuga, tíma eða getu til að kynna sér betur notkunarmöguleika spjaldtölvunnar og flestum fannst þeir hafa verið þvingaðir til að nota þær sem fól í sér talsverða aukavinnu í eigin frítíma auk meira álags í starfi.
 
Samkvæmt viðmælendum virðist það mjög persónubundið hvort spjaldtölvurnar séu að nýtast lesblindum nemendum, en allir viðmælendur voru þó sammála um það að geta haft hljóðbók til taks væri mikil kostur fyrir nemendur.
 
Þrír kennarar nefndu hversu þægilegt það væri ef námsefni væri allt í gagnvirkum rafbókum, þar sem nemendur gætu bæði hlustað og lesið í stað þess að vera sækja tvær skrár, hljóðbók og flettibók. En enginn kennaranna vildi hætta að nota hefðbundnar prentaðar bækur, þar sem það sé allt önnur upplifun að fletta prentaðri bók en rafbók.

 

audurbj [at] simnet.is
http://spinna-honnun.is
Leiðbeinandi: Ingimar Ólafsson Waage
Sérfræðingur: Hildur Rudolfsdóttir