Listamaðurinn og meistaraneminn Lárus Sigurðsson útskrifast frá listkennsludeild Listaháskóla Íslands í júní 2018.
 
Bakgrunnur Lárusar er ansi fjölbreyttur. „Ég tók burtfararpróf frá FÍH í klassískum gítarleik. Lagði stund á Waldorf kennslufræði, mannspeki og hljóðfærasmíði við Emerson College í anda Rudolf Steiner, “ segir Lárus.
 
„Ég fór svo í listkennslufræðina við LHÍ árið 2004, þá eitt ár, diplómanám. Svo tók ég eitt ár og BA-ritgerðina í Listfræði við Háskóla Íslands. Ég stúderaði tréútskurð og steinhögg undir haldleiðslu högglistamannsins Gerhards König.“
 
Áður en Lárus hóf nám við listkennsludeild starfaði hann á Sólheimum í Grímsnesi við smíðar og tónlistarkennslu. „Ég hef lengst af unnið með fötluðum á stofnunum, vinnustofum og sambýlum eða samtals 26 ár. Lengst af á Sólheimum í Grímsnesi eða í 19 ár. Þar sá ég um smíðastofuna og kenndi smíðar í 14 ár.
 
Ég hannaði þar og þróaði strengjahljóðfæri úr tré sem ég hef kallað jarðhörpur. Þær eru í grunninn ætlaðar fyrir fatlaða einstaklinga sem og þá sem kunna ekki að spila á hljóðfæri. Síðan tók ég við tónlistarkennslunni og sinnti henni í fimm ár.“
 
Tónsmíðar og tónlistarútgáfa eru Lárusi hugleikin og hefur hann meðal annars gefið út níu hljómdiska undir eigin nafni og undir merkjum hollenska útgáfufyrirtækisins Volkoren, sem og fjölmarga aðra. „Þrjá hljómdiska hef ég gefið út með dúettnum Calder, einn með gömlu íslensku þjóðlögunum undir nafninu Voces Veritas, fjóra með rokksveitinni Stafrænn Hákon og tvo með Sólheimakórnum.“
 
Sterk löngun til að sökkva sér ofan í fræðin á ný
 
Þegar ég sá listkennslunámið við LHÍ auglýst árið 2004 var ég þess fullviss að ég ætti að sækja um. Uppbygging námsins hljómaði vel í mínum eyrum og mig hafði lengi dreymt um að komast í nám á háskólastigi og öðlast kennsluréttindi. Ég var búinn að nota hendurnar í árabil og mig langaði til að fara nota höfuðuð, m.ö.o. ég hafði áhuga á hinni fræðilegu hlið listkennslunnar og LHÍ bauð upp á afar kærkomna leið til að fullnægja þeirri löngun.“
 
12 árum síðar ákvað Lárus að sækja Listaháskólann heim á ný. „Ég sótti svo aftur um listkennsludeildina árið 2017, ekki hvað síst vegna þess að námið var nú komið á meistarastig og ég fann fyrir sömu löngun til að sökkva mér ofan í fræðin á ný. Einnig til að kynnast öðru fólki sem var í svipuðum hugleiðingum og ég hvað mikilvægi listkennslu fyrir samfélagið varðar, en ég kynntist mörgu áhugaverðu listafólki og kennurum árið 2004 í listkennsludeildinni.“
 
 
Fræðimennskan skerpir á eigin sköpun
 
Lárus sótti sér símenntun í gegnum Opna listaháskólann á meðan hann starfaði á Sólheimum í Grímsnesi. „Ég hafði sótt fjögur námskeið í Opna Listaháskólanum frá 2010-2017 sem voru framúrskarandi: Listir og sjálfbærni, hljóðfærasmíðar, skapandi skrif og listmeðferðafræði fyrir kennarann. Þau héldu fræðaneistanum gangandi. En námið á meistarastigi er bæði áhugavert og krefjandi. Það hefur veitt mér tækifæri til að kynnast nýju fólki, sjónarmiðum, fræðum og áhugaverðum kennurum.
 
Meistararitgerðin er sá farvegur sem maður getur notað til að koma fyrri reynslu og upplifunum af listsköpun og –kennslu í fræðilegan búning. Ég tel að það sé mikilvægt fyrir listamenn og kennara að sinna fræðimennsku, allavega að einhverju marki. Það skerpir á manns eigin sköpun og getur verið fróðlegt aflestrar fyrir aðra. Námið við listkennsludeild LHÍ er framúrskarandi að þessu leyti.“
 
 
Hvað ertu tónlist? Hvað ertu hlustun? Og hvað ertu tækni?
 
Lokaverkefni Lárusar við listkennsludeildina er fræðileg ritgerð og hverfist í kringum þrjú megin hugtök: tónlist, tækni og hlustun. „Í verkefninu leitast ég við að varpa ljósi á hvernig tónlistarhlustun hefur breyst með tilkomu hljóðupptökutækninnar. Það geri ég með því að spyrja þriggja spurninga: hvað ertu tónlist? hvað ertu hlustun? og hvað ertu tækni? Þeim svara ég með því að fjalla um eigin reynslu af tónlistarsköpun og tónlistarkennslu og tengi hana við tónlistarsöguna, fræðin og tónlistarheimspeki fornaldar. Tónlist er afar víðfeðmt hugtak en ég held mig við hina heimspekilegu hlið hennar að mestu.“
 
 
Verkefnið vill verða að bók
 
Framundan eru áframhaldandi skrif hjá Lárusi en lokaverkefnið kallar á áframhaldandi vinnu.  „Það vill verða að bók um tónlistarheimspeki. Einnig mun ég opna nýja vinnustofu í Hafnarfirði með samstarfsmanni og kennara, Gerhard König. Þar munum við framleiða trélistaverk, húsgögn, og hljóðfæri (jarðhörpur). Hugmyndin með þessari vinnustofu er að halda lengri og styttri námskeið í trélistsköpun samhliða því að sinna okkar eigin listsköpun,“ segir Lárus og bætir við að lokum:
 
„Ef þú lesandi góður ert að hugsa um nám við listkennsludeild LHÍ þá segi ég við þig: sæktu um, það mun marg borga sig fyrir þig, bæði sem skapandi einstakling sem og listgreinakennara.“