Einkasýning Ýmis Grönvold, Minni, opnar fimmtudaginn 27. október kl.17:00 - 20:00 í Kubbnum, Laugarnesvegi 91, 2. hæð. Sýningin er í röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist.

Sýningin Minni er innsetning. Síðastliðna mánuði hef ég verið að vinna með hina ýmsu miðla; leir, gips, málverk, video og fundið efni. Sýningin er afrakstur þessarar vinnu, þar sem ég tekst á við sýningarformið, flötinn og rýmið.

Þegar gengið er inn í rýmið mætir manni skúlptúr sem er leiraður og er af einhverskonar veru. Hún virðist vera bundin niður með gips-grisjum, og liggur á leiruðum pizzakassa sem gaf sig undan þyngd skúlptúrsins. Undir þessu öllu er olíutunna, máluð í lillabláum lit. Rýmið er frekar dimmt og mest öll lýsingin kemur frá tveimur heimatilbúnum skjávörpum í miðju rýminu, sem standa ofan á olíutunnum. Þessir skjávarpar eru í sjálfu sér skúlptúrar sem varpa myndböndum á veggi, málverk og plötur sem eru í stöflum upp við vegginn, sumt er málað en annað eru autt.

Ég byrjaði. Tilfinningin fyrir efninu leiddi mig áfram og í efninu er ákveðin frásögn af atburðum. Ég hugsaði í gegnum efnið. Verkin lýsa ákveðnu hugsunarferli og á milli verkanna er ákveðið samtal. Hugmyndir smitast milli verka og þvert á miðla. Verkin eru öll hugsuð í samhengi við hvort annað, koma saman í rýminu og mynda heild.

Facebookviðburður sýningarinnar.

Á tímabilinu 13. október - 24. nóvember stendur yfir röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist, alls 18 sýningar

Á hverjum fimmtudegi frá 13. október - 24. nóvember opna í senn þrjár einkasýningar á mismunandi sýningarstöðum í Listaháskólanum Laugarnesi; í Naflanum sem er inn í miðju skólans, í Kubbnum á annari hæð og síðast en ekki síst í Skúrnum sem sendur fyrir utan húsið austanmegin. Opnanir eru frá kl.18 - 21 á fimmtudögum. Einkasýningar nemenda er liður í námskeiðinu Vinnustofur prófessora í umsjón Heklu Daggar Jónsdóttur. Kennarar ásamt Heklu eru Unnar Örn og Sindri Leifsson.

Allar einkasýningar 3. árs nema í myndlist.