Brugðið til beggja vona er útskriftarverk Hallveigar Kristínar Eiríksdóttur af Sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands. Verkið er samsköpunarverk allra sem að því koma.  

Undanfarnar vikur hefur hópurinn litið í eigin barm og skoðað hinar ýmsu leiðir sem við sem vestrænar konur (og Jón) förum að því að reyna að bjarga umhverfinu í amstri hversdagsleikans. Niðurstaðan rannsóknarinnar er sú að það er víst kominn nýr og meðfærilegur efnarafall fullur af örverum og eggjahvítu sem getur umbreytt pissi í vatn og rafmagn, og svo er víst einhver tóner í ljósritunarvélum sem framleiðir óson ef maður ljósritar undir berum himni. Annars er verðið í sundlaugum úti á landi farið að hækka upp úr öllu valdi, hver tímir 1700 kalli á haus?  

 
Hópurinn samanstendur af Hallveigu, Ernu Gunnarsdóttur, Eygló Höskuldsdóttur Viborg, Írisi Björk Gunnarsdóttur, Jóni Nordal, Selmu Reynisdóttur og Snæfríði Sól Gunnarsdóttur. Öll sinna þau hinum ýmsu hliðum samsköpunarverksins, svo sem leik, dansi, sviðsmynd og tónlistarflutningi.  

 

Hallveig Kristín er upprennandi sviðshöfundur sem hefur unun að því að gera sviðslist með hópum af góðu fólki og að mála málverk í einrúmi. Hún hefur um hríð verið meðvituð um að hún sem vestræn íslensk kona sé í raun bara að gera ástandið verra fyrir umhverfið með tilvist sinni.  

 

Frítt er inn á alla viðburði Listaháskólans en opnað verður fyrir miðapantanir mánudaginn 7.maí á tix.is