Tinna sem hefur verið sjálfstætt starfandi vöruhönnuður frá árinu 1993 nam hönnun í Bretlandi (1988-1992) og á Ítalíu (1997). Hún hefur kennt við Listaháskóla Íslands frá stofnun hans, og var um árabil fagstjóri í vöruhönnun. Síðastliðinn vetur dvaldi Tinna í Bretlandi þar sem hún lagði stund á meistaranám í rannsóknum með áherslu á vöruhönnun.

Í fyrirlestrinum mun Tinna fjalla um meistaraverkefni sitt við University of Brighton en í því veltir hún fyrir sér hvernig hægt sé með inngripi vöruhönnuðarins að auðga upplifun fólks í villtri náttúru með sem minnstri umhverfisröskun.

 

Sneiðmynd - skapandi umbreyting

Í fyrirlestrum vetrarins kynna kennarar Hönnunar- og arkitektúrdeildar eigin hönnunarverkefni og rannsóknir og ræða tengsl þeirra við kennslu í námskeiðum við deildina. Auk þess að fjalla um eigin verkefni verða tengsl hönnunar, sköpunar og rannsókna, kennslu og þekkingaröflunar rædd út frá ýmsum sjónarhornum.
Við Hönnunar- og arkitektúrdeild er boðið upp á nám á fjórum námsbrautum til bakkalárgráðu, í arkitektúr, fatahönnun, grafískri hönnun og vöruhönnun, auk þess sem boðið er upp á meistaranám í hönnun. Áhersla er lögð á að nemendur kunni skil á fræðilegum forsendum hönnunar og geti út frá þekkingu sinni tekið ábyrga afstöðu til umhverfis og samfélags. Nemendur eru stöðugt hvattir til að leita nýrra lausna og leiða og leggja sérstaka rækt við frumleika, ímyndunarafl og gagnrýninn hugsunarhátt og endurspeglast þessi áhersla einnig i í kennslu og rannsóknum kennara.

Hádegisfyrirlestrarnir eru í sal A í húsnæði Hönnunar- og arkitektúrdeildar að Þverholti 11. Fyrirlestrarnir eru öllum opnir og er bæði fagfólk, nemendur og áhugafólk um hönnun hvatt til að mæta.