Vöruhönnuðurinn Jón Helgi Hólmgeirsson útskrifaðist sem vöruhönnuður frá LHÍ árið 2012 og tók síðan master í samspilshönnun (e. interaction design) frá háskólanum í Malmö 2015. Hann hefur að mestu unnið sjálfstætt eftir útskrift en eftir að hann kláraði námið í Malmö byrjaði hann að vinna með frumkvöðlafyrirtækinu Genki Instruments sem í dag á hug hans allan. Fyrirtækið hefur vakið mikla athygli fyrir hönnun sína á gagnvirkum hring sem leyfir tónlistarfólki að hafa áhrif á hljóð, effekta og senda skipanir með hreyfingum handarinnar. Hönnunar- og arkitektúrdeild tók Jón Helga tali. - (Mynd efst: Snorri Guðmundsson)
 
jon_helgi_preview.jpeg
Jón Helgi Hólmgeirsson útskrifaðist sem vöruhönnuður úr Hönnunar- og arkitektúrdeild. - Mynd: Stúdíó Fræ
 
 
Hvernig hefur leið þín legið eftir útskrift úr LHÍ?
"Hún hefur verið hlykkjótt, á jákvæðan hátt. Mér byrjar yfirleitt að leiðast mjög ef ég þarf að fást við sama verkefnið of lengi og því hef ég glaður tekist á við mjög mismunandi verkefni síðustu ár. Útskriftarverkefnið mitt frá LHÍ, Jónófón - flatpack plötuspilari úr pappír, landaði mér hinum og þessum verkefnum þegar ég útskrifaðist. Ég kom til dæmis að hönnun NorðurSalts umbúðanna með Jónsson & Le’macks sem hlutu Red Dot verðlaunin og hannaði tvö ljós inn í vörulínuna Selected by Bility sem hlaut verðlaunin Vörulína ársins hjá Grapevine. Ég gerði skartgripalínu fyrir Hring eftir Hring, hannaði jólaljós fyrir IKEA, tók þátt í að hanna innviði veitingastaðarins Nostra og hannaði hillulínu fyrir fyrirtækið FÓLK. Nú er ég að einbeita mér að því að byggja upp fyrirtækið Genki Instruments, en við erum að þróa þennan hring sem leyfir tónlistarfólki að hafa áhrif á hljóð, effekta og senda skipanir með hreyfingum handarinnar. Þarna í millitíðinni tók ég síðan master í samspilshönnun sem kenndi mér aðferðafræði varðandi það að hanna samspil fólks við hluti. Hvernig fólk á í samskiptum við hluti og hvernig ég sem hönnuður get hannað þetta samspil."
 
jonofon3_preview.jpeg
„Jónófón - flatpack plötuspilari úr pappír, landaði mér hinum og þessum verkefnum þegar ég útskrifaðist“ - Mynd: Héðinn Eiríksson
 
 
Hver eru þín helstu verkefni um þessar mundir og afhverju ertu að fást við þessi verkefni?
"Genki Instruments á allan minn fókus þessa stundina. Við erum fjögurra manna þverfaglegt teymi - einn hönnuður, tveir verkfræðingar og einn aðili sem sér um viðskiptahliðina. Við höfum fengið styrki frá bæði Hönnunarsjóði og Tækniþróunarsjóði sem hefur gert okkur kleyft að vinna að uppbyggingu þessa fyrirtækis síðastliðin tvö ár.
 
Ástæðan fyrir því að ég er að fást við þetta er einfaldlega sú að ég hef frá því ég byrjaði að læra og fást við hönnun, reynt að samtvinna hönnun við áhuga minn á tónlist. Ég hef í gegnum tíðina haft mjög mikinn áhuga á tónlist og spilað í nokkrum hljómsveitum en einhvernveginn sá ég það ekki ganga upp sem tekjulind svo ég lærði hönnun (mögulega ekki gáfulegasta valið til að framfleyta sér). Þegar ég áttaði mig á því að ég væri kominn með tól í hendurnar, þ.e. hönnunina, sem leyfði mér að nálgast tónlist á annan máta en að spila hana, ákvað ég að reyna að tengja þetta saman.
 
Ég var fenginn inn sem ráðgjafi til Genki Instruments sumarið 2015 þegar þeir voru að taka sín fyrstu skref sem fyrirtæki. Ég var að reyna að hjálpa þeim að skilgreina hvað þeir væru að gera og hvernig það gæti virkað og litið út. Þetta samstarf milli okkar átti svo vel við að ég kom í framhaldinu inn í fyrirtækið sem meðeigandi og yfirhönnuður (ekki yfir neinum svo sem, þar sem ég er eini hönnuðurinn, en ég fæ að taka allar hönnunarákvarðanir). Síðan þá höfum við tekist á við þetta þróunarferli í sameiningu, enda held ég að við hefðum aldrei komist á þann stað sem við erum á núna án þess að vera með þverfaglegt teymi - menn í hverju horni sem hafa sitt sérsvið - enda er þessi jákvæða togstreita á milli verkfræðinga og hönnuða einstaklega mikilvæg (og erfið) í samstarfi sem þessu."
 
Þess má geta að Genki Instruments hrepptu annað sætið á Creative Business Cup, alþjóðlegri samkeppni sem fram fór í Kaupmannahöfn síðastliðið haust. Í umsögn dómnefndar segir: „Önnur verðlaunin hreppir fyrirtæki sem samþættir djúpa tæknilega kunnáttu og ástríðu fyrir tónlist. Fyrirtækið nýtir sér nýjustu tækni til að skapa lausnir sínar frá grunni og er afraksturinn dásamlegt notendaviðmót. […] Þessi vara er ekki aðeins stórkostlegt tæki til að rækta tónlistarhæfileika þína – dómnefndin okkar sér einnig hversu mikið vægi og marga möguleika þessi tækni hefur öðrum iðnaði upp á að bjóða. Þetta er gífurlega efnilegt fyrirtæki, og við hlökkum til að sjá meira af því í framtíðinni.” Aukinheldur, hrepptu Genki Instruments sérstök Microsoft verðlaun og verðlaunafé í samkeppninni.
 
"Þó svo að þetta verkefni eigi hug minn allan, vann ég þrátt fyrir það verkefni fyrir nýtt fyrirtæki sem heitir FÓLK en það eru hillur sem ég hannaði sem komu út í desember. Þetta er einstaklega spennandi fyrirtæki en FÓLK fær inn til sín hönnuði til að hanna vörur en fyrirtækið sér síðan um framleiðslu, markaðssetningu og sölu. Þetta er því grundvöllur fyrir íslenska hönnuði til að einbeita sér að hönnun á meðan að aðrir sjá um þá hluti sem hönnuðurinn er ekkert endilega sérstaklega fær í. Í sjálfu sér virkar þetta eins og mörg hönnunarfyrirtæki úti í hinum stóra heimi, t.d. Norman Copenhagen, en þetta hefur algjörlega vantað hérna heima."
 
long-min_preview.jpeg
„Genki Instruments á allan minn fókus þessa stundina.“ (Úr myndaþætti eftir Stúdíó Fræ fyrir HA Magazine og Genki Instruments) - Mynd: Stúdíó Fræ
 
 
Af hvaða verkefnum ertu stoltastur og afhverju?
"Mér finnst mjög erfitt að vera stoltur af einhverju einu því bakvið hvert verkefni er svo óendanleg vinna sem er ekkert endilega sýnileg öllum. Þar af leiðandi leggur maður yfirleitt allt sitt í hvert verkefni og þegar manni tekst að klára verkefni verður maður eðlilega stoltur. En það ýtir alveg undir stoltið ef að verkefnið fær viðurkenningu, hvort sem það eru verðlaun eða einfaldlega það að einhver hrósar þér fyrir - sérstaklega ef að sá hinn sami hefur eignast vöru eftir þig og er ánægður með.
Þannig svarið er að ég er stoltastur af flestum verkefnum sem ég hef gert. Ég allavega reyni að tækla verkefni þannig að ég þurfi ekki að skammast mín mikið fyrir þau."
 
eldleifturprintsingle_preview.jpeg
„Þannig svarið er að ég er stoltastur af flestum verkefnum sem ég hef gert.“ (Eldleiftur) - Mynd: Marinó Thorlacius
 
 
Hvað telur þú einkenna þína hönnun og afhverju leggur þú stund á vöruhönnun?
"Það væri líklega auðveldara fyrir einhvern utanaðkomandi að svara þessari spurningu. Ég geri yfirleitt bara það sem mér finnst rökrétt hverju sinni og oft eru útkomur litaðar af allskonar uppákomum í ferlinu. Á tímabili hefði verið hægt að segja að pappír og flatpack pælingar einkenndu hönnun mína en ég held að ég hafi mögulega gert of mikið af því og því ekki mikið að fókusa á það ennþá. Nú finnst mér alveg jafn áhugavert að hanna virkni hluta eins og að hanna form þeirra - þó svo að virknin sé mun ósýnilegri auganu. Ef hún er vel hönnuð er hún eitthvað sem fólk tekur ekki eftir. Mér finnst það mjög heillandi, enda fæ ég ekkert sérstaklega mikið út úr því að vera of sýnilegur.
 
Svarið við því afhverju ég legg stund á vöruhönnun er aftur á móti ekkert einfaldara. Ég vissi ekkert hvað ég var að fara út í þegar ég sótti um í námið í LHÍ og svosem ekki heldur þegar ég sótti um masterinn í Malmö, en ég fann strax að hönnun átti vel við mig, mér gekk ágætlega og fannst þetta bæði áhugavert og skemmtilegt. Það hafa alveg komið tímar þar sem ég hef hugsað að núna væri þetta komið gott og ég skildi fara að gera eitthvað annað - sér í lagi þegar lítið er um innkomu eða verkefni virðast ganga illa og engan endi ætla að taka. En þegar maður lítur á stóru myndina þá held ég að ég að það eigi ágætlega við mig að vera hönnuður - kannski sérstaklega út af fjölbreytileika verkefna."
 
krafla1_preview.jpeg
„Á tímabili hefði verið hægt að segja að pappír og flatpack pælingar einkenndu hönnun mína en ég held að ég hafi mögulega gert of mikið af því og því ekki mikið að fókusa á það ennþá.“ (Krafla) - Mynd: Axel Sigurðarson
 
 
Hvernig hefur námið í LHÍ nýst þér?
"Mjög vel myndi ég segja enda vissi ég lítið út á hvað hönnun gekk áður en ég skráði mig í vöruhönnunarnámið. Ég hefði persónulega viljað hafa aðeins tæknilegri nálgun í náminu þegar ég var þar. Þá voru þrívíddarprentarar og laserskurðarvélar ekki jafn aðgengileg tæki og í dag en urðu það mjög fljótlega eftir að ég útskrifaðist. Við fengum vikulanga kennslu í Rhino á öðru ári og heimtuðum síðan að fá að eyða vetrarfríinu okkar á þriðja ári í að læra meira. Það var mjög mikilvæg þekking sem ég fékk frá þessari aukaviku enda nota ég Rhino og þrívíddarprentun á næstum hverjum degi í dag, bæði til að teikna upp hugmyndir og til að búa til prótótýpur á stuttum tíma.
 
Annars er líklega það mikilvægasta sem ég tók úr þessu námi einfaldlega hönnunarhugsunin, eða design thinking. Það er eitthvað sem ég nýti í hverju sem er hvort sem það er hönnunartengt eða ekki, því í sjálfu sér kennir hönnunarhugsun manni einfaldlega það að takast á við mismunandi vandamál, horfa á þau frá mismunandi sjónarhornum, ekki festa sig of fljótt í einni lausn og að stoppa ekki þó svo að góð lausn virðist ekki vera í sjónmáli. Það mætti nánast kalla þetta lífsspeki eða trúarbrögð. Ég sé ekki vandamál lengur sem óyfirstíganlegan vegg heldur eitthvað sem þarf að horfa á frá öðru sjónarhorni til að finna lausnina á."
 
jonofon1_preview.jpeg
„Ég sé ekki vandamál lengur sem óyfirstíganlegan vegg heldur eitthvað sem þarf að horfa á frá öðru sjónarhorni til að finna lausnina á.“ (Jónófón) - Mynd: Héðinn Eiríksson