Fagráð Listaháskóla Íslands ályktar eftirfarandi um húsnæðismál skólans:

Allt frá stofnun Listaháskóla Íslands árið 1998 hefur skólinn búið við lakari húsakost og aðbúnað en aðrir háskólar í landinu. Starfsfólk og nemendur hafa sýnt fádæma þolinmæði og útsjónarsemi við erfiðar aðstæður án þess að tekist hafi að fá stjórnvöld til samstarfs um framtíðarlausn. Það starf sem fram fer innan skólans er þrátt fyrir þennan aðbúnað, metnaðarfullt, samfélagslega ábyrgt og stenst fyllilega erlendan samanburð.

Fagráð telur að það sé sanngirnismál, bæði gagnvart starfsfólki skólans og nemendum hans, að lýðræðislega kjörnir fulltrúar sem eru í forsvari fyrir mótun starfsumhverfis háskólanna, komi af sömu ábyrgð og einurð að lausn á húsnæðisvanda Listaháskólans og starfsfólk og nemendur hafa sýnt við núverandi aðstæður.

Fagráð telur að við óbreytt ástand verði ekki unað og að leita verið úrlausna nú þegar eigi ekki að stefna gæðum skólastarfsins og eðlilegri framþróun í voða. Það er ávinningur allra að sterk og öflug háskólamenntun á fræðasviði lista sé í boði á Íslandi. Til þess að svo megi vera þarf að búa henni sambærilegt umhverfi og önnur fræðasvið njóta.