Rendez-wood?

Þriðja árs nemar í vöruhönnun taka þátt í HönnunarMars með sýningu á röð verka sem eru afrakstur vinnustofunnar „Stefnumót við skógarbændur“ sem nemendur sóttu á haustönn. Nemendur unnu með „low-tech“ og primitivísk koncept þar sem þau einblíndu á þörf nútímamannsins til þess að tengjast náttúrunni á ný. Verk nemenda hafa vakið mikla athygli og hefur verið fjallað um þau í virtum erlendum hönnunartímaritum. Verkin eru til sýnis á Fosshótel Lind að Rauðarárstíg 18.

Tískusýning 2. árs nema í fatahönnun

Árleg tískusýning 2. árs nema í fatahönnun verður fimmtudaginn 27. mars kl. 20:00 í Norðurljósasal Hörpu. Þar sýna 10 nemendur afrakstur 6 vikna námskeiðs í fatahönnun undir leiðsögn Katrínar Maríu Káradóttur aðjúnkts og fagstjóra fatahönnunarbrautar Listaháskólans og Lindu Bjargar Árnadóttur lektors. 

Á tískusýningunni sýna nemendur fatalínu sem þau hafa hannað frá grunni en lögð er áhersla á að við hönnun línunnar fylgi hver nemandi sinni persónulegu sýn.

Mæna

Mæna, tímarit um grafíska hönnun á Íslandi verður gefin út í fimmta skipti þriðjudaginn 25. mars. 

Tímaritið er unnið af útskriftarnemum í grafískri hönnun við Listaháskólann undir leiðsögn Dóru Ísleifsdóttur, prófessors við deildina og ritstjóra blaðsins. Hönnunarstjórar Mænu eru þær Birna Geirfinnsdóttir, lektor og fagstjóri námsbrautar í grafískri hönnun og Lóa Auðunsdóttir, aðjúnkt í grafískri hönnun. 

Þema tímaritsins í ár er tækni og voru hönnuðir, fræðimenn, nemendur og aðrir ritsnillingar fengnir til að rita greinar blaðsins með þemað að leiðarljósi. Útgáfuhóf verður þriðjudaginn 25. mars kl.17:00 í Dansverkstæðinu að Skúlagötu 30. Tímaritið verður hægt að nálgast á sýningu FÍT (Félags Íslenskra teiknara) í Þjóðmenningarhúsinu á HönnunarMars, fimmtudaginn 27. mars.

Túlkun orðabókarinnar

Nemendur á fyrsta ári í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands sýna tuttugu ólíkar útfærslur á orðabókum í Gallerý Dusted, Pósthússtræti 13. Á sýningunni er hið hefðbundna form orðabókarinnar tekið og fært í nútímalegan búning.

Skoðaðu í Kistuna mína

MA nemendur í hönnun bjóða gestum að skoða í hirslur sínar. Eins konar „Wunderkammer“. Hver og einn sýnir það sem kveikir forvitni hans á þessari sýningu í hjólabúðinni Kríu, Grandagarði 7. Opnun fimmtudaginn 27. mars kl. 19:00

Betri tíð Scintilla

Scintilla, hönnunarfyrirtæki Lindu Bjargar Árnadóttur, lektors í fatahönnun hefur hannað blómapotta í samstarfi við Blómaval. Samstarfið verður kynnt í garðhýsi sem sett verður upp á Lækjartorgi. 

Að auki eru fjölmargir útskrifaðir nemendur og stundakennarar Listaháskólans sem taka þátt í dagskrá HönnunarMars.