Þátttaka kvenna í Gullegginu eykst töluvert á milli ára
Fréttatilkynning, 26. janúar 2016

 

Gulleggið er stærsta frumkvöðlakeppni landsins og leggur áherslu á hugmyndir sem verða til innan háskólanna. Í ár var lögð sérstök áhersla á að hvetja konur til þátttöku og fjölgaði umsóknum kvenna úr 30% í 43% á milli ára.

 

  • Frá því að keppnin hóf göngu sína árið 2008 hafa borist í hana yfir 2.200 hugmyndir.
  • Opnunarhátíð var haldin sl. laugardag, 23. janúar, en yfir 400 einstaklingar eru að þessu sinni skráðir til þátttöku með um 200 nýjar viðskiptahugmyndir.
  • Hlutfall kvenna í keppninni jókst úr 30% árið 2015 í 43% árið 2016.

 

Það er Icelandic Startups (áður Klak Innovit) sem stendur fyrir frumkvöðlakeppninni Gulleggið.

 

Þegar tölur um þátttöku kynjanna í keppninni voru skoðaðar sl. haust kom í ljós að mikið hallaði á konur.

 

“Við vildum skapa umfjöllun og umræðu um þessar niðurstöður og leggja okkar af mörkum til að jafna þetta hlutfall. Því var skipulagt sérstakt málþing í byrjun árs sem bar yfirskriftina “Engar Hindranir” þar sem markmiðið var að hvetja konur til þátttöku í Gullegginu og frumkvöðlastarfi almennt. Við fundum fyrir miklum meðbyr við skipulagninguna og ljóst að umræðan er bæði þörf og velkomin. Það er því afar ánægjulegt að sjá hlutfall kvenumsækjenda aukast úr 30% í 43% á milli ára”

 

  • Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups

 

Í ár bárust rétt um 200 umsóknir í keppnina, en að baki þeim standa um 400 einstaklingar auk þess sem um 25 sóttu um án hugmyndar, en það hefur nú staðið til boða í þrjú ár og gefist mjög vel.

 

Þátttaka í Gullegginu hefur í gegnum tíðina orðið ákveðinn gæðastimpill fyrir þær hugmyndir sem valdar eru í topp tíu sætin auk þess sem því fylgir gjarnan töluverð umfjöllun og athygli fjölmiðla og fjárfesta.

 

“Á meðal fyrirtækja sem stigu sín fyrstu skref á þessum vettvangi má nefna fjármálafyrirtækið Meniga, Controlant sem nýlega lauk um 320 milljón króna fjármögnun, Clara sem seld var fyrir nokkrum árum til Jive Software í Bandaríkjunum fyrir 1 milljarð króna, Karolina Fund, Solid Clouds sem sumir vilja meina að komi til með að rísa upp í sömu hæðir og CCP, Radiant Games ofl ofl sprotar sem við þreytumst ekki á að nefna.”
Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups
 
Með þátttöku í Gullegginu öðlast einstaklingar dýrmæta reynslu við mótun nýrra viðskiptahugmynda, en meginmarkmið keppninnar er að skapa vettvang sem styður ungt athafnafólk við þróun nýrra hugmynda. Í framhaldi af skráningu í Gulleggið eiga þátttakendur þess kost að sækja vinnusmiðjur þar sem margir af helstu samstarfsaðilum keppninnar bjóða fram aðstoð sína og flytja erindi. Samstarfsháskólar keppninnar eru fjórir, HÍ, HR, Bifröst og Listaháskóli Íslands og þeim til viðbótar eru helstu bakhjarlar keppninnar Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Landsbankinn, KPMG, Advel, Alcoa, og Nova.

 

Nánari upplýsingar um Gulleggið má finna á www.gulleggid.is