Fatalínan Yulia eftir Hildi Yeoman var útnefnd fatahönnun ársins en tískusýningin þótti frumleg auk þess sem bæði klæðnaðurinn og konseptið að baki línunni þótti áhugavert og hrífandi. Hildur kennir við Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskólans auk þess að hafa numið fatahönnun við skólann á sínum tíma.

Sun Hat frá Vík Prjónsdóttur var valin vara ársins en hver litrík húfa endurspeglar ákveðinn mánuð ársins. Hönnunin er sögð einföld, aðgengileg og glettin. Þess má geta að Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir, einn stofnenda og hönnuða fyrirtækisins, er annar sýningarstjóri útskriftarsýningar BA-nema í myndlist og hönnun og arkitektúr 2015.  

Selected by Bility var valin vörulína ársins en Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir hjá Bility valdi nokkra unga og upprennandi vöruhönnuði til að hanna gripi innan ákveðins ramma. Hönnuðurnir, Jón Helgi Hómgeirsson, Þorleifur Gunnar Gíslason og Elín Bríta Sigvaldadóttir, nýttu tækifærið til hins ítrasta og eru þau öll vel að verlaununum komin. Guðrún Lilja starfar sem kennari við Listaháskólann og hönnuðurnir ungu námu ýmist grafíska hönnun eða vöruhönnun við skólann.

Sýning Harðar Lárussonar Skjótum upp fána í gallerí Þoku var útnefnd verk ársins. Þar bauð hann fólki að hanna nýja þjóðfána fyrir Ísland sem hann lét svo búa til og flaggaði í nágrenni Ráðhúss Reykjavíkur og Hörpu sem varð að lögreglumáli þar sem Hörður var sakaður um brot á fánalögum. Grapevine þótti það síður en svo skemma fyrir. Hörður bæði nam og kennir við Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskólans.