Hönnunarverðlaun Íslands voru afhent í annað sinn þriðjudaginn 24. nóvember, við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum. Ríflega 100 tilnefningar bárust dómnefnd sem tilnefndi fimm verkefni sem þóttu sigurstranglegust. Verkefnið sem þótti skara framúr að mati dómnefndar og hlaut Hönnunarverðlaun Íslands 2015 er Sýningin Eldheimar – gosminjasýning í Vestmannaeyjum. Hönnunarverðlaun Íslands 2015 eru peningaverðlaun að upphæð 1.000.000 krónur, veitt af iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Hönnunarmiðstöð Íslands stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins.

Dómnefnd var skipuð fulltrúum úr ólíkum fagfélögum og sérfræðingum á sviði hönnunar. Massimo Santanicchia, lektor í arkitektúr, var fulltrúi Listaháskólans í nefndinni en auk þess sátu Katrín María Káradóttir, aðjúnkt og fagstjóri fatahönnunarbrautar við LHÍ, Tinna Gunnarsdóttir aðjúnkt í vöruhönnun við LHÍ, Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri samtaka iðnaðarins og Örn Smári Gíslason, sjálfstætt starfandi grafískur hönnður í nefndinni. Formaður dómnefndar var Harpa Þórsdóttir, forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands. 

Hönnunarverðlaun Íslands eru þýðingarmikil fyrir íslenskt hönnunarsamfélag. Þótt vægi hönnunar í menningu okkar, samfélagi og viðskiptalífi sé að aukast er mikilvægt að vekja athygli og dýpka skilning á gildi góðrar hönnunar. Sýningin Eldheimar, sem hlaut verðlaunin nú í ár, er verk Axels Hallkells Jóhannessonar sýningarhönnuðar, Gagarín sem hannaði gagnvirka sýningarhluta, arkitektsins Margrétar Kristínar Gunnarsdóttur og Lilju Kristínar Ólafsdóttur landslagsarkitekts.  

Í tilkynningu frá dómnefnd segir: „Sýningin miðlar einstökum atburði í náttúrusögu Íslands með framúrskarandi hætti. Sýningin er til vitnis um hugmyndaríkar og vel útfærðar leiðir til að ná til gesta með öflugum sjónrænum og gagnvirkum hætti. Verkefnið er einstaklega metnaðarfullt og gildi þess ótvírætt þegar litið er til þverfaglegs samstarfs hönnuða og arkitekta.“

 

Besta fjárfesting í hönnun 2015

Í ár var einnig veitt viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun 2015. Fyrirtækið sem hlaut þá viðurkenningu er alþjóðlega heilbrigðistæknifyrirtækið Össur.

Össur hefur allt frá stofnun lagt áherslu á, fjárfest í og skilgreint hönnun sem einn af meginþáttum þróunarferlisins. Þá hefur fyrirtækið hvatt starfsfólk sitt til að keppa stöðugt að framförum og taka áhættu. Árangurinn er óumdeildur.

Þau verkefni sem einnig hlutu tilnefningu eru eftirfarandi:

Allt til eilífðar, landslagsverk við Garðakirkju á Álftanesi og varð til fyrir tilstuðlan foreldra Guðrúnar Jónsdóttur, sem lést sviplega árið 2006. Verkið er hannað af Studio Granda arkitektum og unnið í samstarfi við Kristinn E. Hrafnsson myndlistarmann. 

Fatahönnun Anítu Hirlekar sem einkennist af sterkum litasamsetningum og handbróderuðum textíl. Innblástur er fenginn úr óreiðukenndu flæði lita á bakhlið útsaums og er fatnaðurinn með handsaumuðum línum og hangandi marglitum þráðum sem þekja yfirborð efnisins eins og kraftmiklar pensilstrokur. 

Íslenski fáninn, verk grafíska hönnuðarins Harðar Lárussonar sem rekur rætur sínar í skýrslu fánanefndar frá 1915. Verkefnið spannar langan tíma og telur meðal annars bók þar sem gömlu fánatillögurnar eru teiknaðar upp í fyrsta sinn, síðar leiðarvísi með umgengnisreglum um íslenska þjóðfánann, sýningu og viðburð á HönnunarMars og samstarf við forsætisráðuneytið í skilgreiningu prent- og skjálita fánans.

Primitiva, eftir Katrínu Ólínu Pétursdóttur,  þróun þrívíðs formheims. Verkið er safn fjörutíu verndargripa sem steyptir eru í brons en byggja á þrívíddarprentun. Úr varð hugmyndakerfi um gripina sem standa fyrir ákveðið hugtak sem snertir innri vitund þess sem ber gripinn. Samhliða gripunum skrifaði Katrín leiðabókina Primitiva, book of Talismans.