Tveir íslenskir sviðshöfundar eru leiðandi í Norrænu rannsóknarverki sem fram fer í beinni vefútsendingu þann 28.október kl.11 að íslenskum tíma. Sviðssetningin er er lokahnykkurinn á rannsóknarstofu  í Lillehammer, Bridging the Gap,  og lokapunktur á þriggja ára samnorrænu rannsóknarverkefni, TNT, sem sviðslistadeild Listaháskólans hefur tekið þátt í.

TNT, Theatre & New Technology, hefur að markmiði að kanna tæknilega möguleika sviðslistaformsins og áhrif nýtækni á frásögn og miðlun í sviðslistum almennt. Aðilar verkefnisins eru Ríkisleikhúsið í Svíþjóð, Rannsóknarstofa sviðslista við Háskólann í Tampere, Kvikmyndaskólinn í Lillehammer og sviðslistadeild Listaháskóla Íslands.

Tveir sviðshöfundanemar hafa tekið þátt í verkefninu frá upphafi og eru nú listrænir stjórnendur verskins en þau útskrifuðust bæði frá sviðshöfundabraut síðastliðið vor.

Sigurjón Bjarni Sigurjónsson er handritshöfundur og Gréta Kristín Ómarsdóttir er leikstjóri verksins og stýrir listrænni framkvæmd þess frá kvikmyndaskólanum í Lillehammer, en þaðan er verkinu stýrt. Verkið er samansett úr ólíkum listrænum þáttum; ljósi, hljóði, grafík og avatar sem stjórnað er í rauntíma af hreyfihermi. Efnið er sent í beinni útsendingu í gegnum háhraða ljósleiðaranet frá Svíþjóð og Finnlandi til Noregs inn í „green screen“ kvikmyndastúdíó með leikurum hvaðan samansett sviðssetningin verður send út í beinni vefústendingu á netinu.

Áhorfendur geta fylgst með sviðssetninguna á sérstakri slóð á veraldarvefnum http://theatreandnewtechnology.com/ en þar má lika nálgast nánari upplýsingar um verkefnið.

Eftir útsendinguna sem tekur um 10 mínútur verða pallborðsumræður um ferlið, tæknina sem notuð er í verkinu og framtíðarmöguleika við notkun hennar.