Svona lýsa nemendur ferðinni og hönnunarmessunni: „Borgin var yfirfull af sýningum í hverju horni af hverskyns toga, þar sem mátti sjá allt frá verslunarvöru yfir í spennandi og tilraunakennda hönnun. Dagarnir flugu áfram í leit að spennandi sýningum, möguleikarnir voru svo margir að erfitt reyndist að velja og við þurftum að nýta hverja vökustund til að upplifa sem mest.
Bekkurinn fékk tækifæri á að kynnast hönnuðum og möguleikum í vöruhönnun auk þess að mynda tengsl við spennandi hönnuði.
Margar sýningar vöktu áhuga okkar, þar stóð Lambrate hverfið upp úr. Skólar á borð við Design Academy Eindhovern og Kolding Design School sýndu gestum og gangandi tilraunir og verk sem höfðu orðið til á seinustu árum. Vikan var einstaklega vel heppnuð, mjög frábrugðin HönnunarMars og ég tel okkur geta dregið ákveðinn lærdóm af sýningunum: Að þora að sýna án þess að selja.”