Umsækjandi skal vera tónlistarmaður eða tónskáld með mikilsverða reynslu í list- og atvinnuumhverfi tónlistar. Það skilyrði er sett að umsækjandi hafi meistaragráðu eða sambærilega háskólagráðu í greininni.

Deildarforseti fer með yfirstjórn tónlistardeildar og er í forystu fyrir starfsemi hennar bæði innávið og útávið. Hann leiðir stefnumótun fyrir deildina, ræktar samstarf kennara og sérfræðinga, byggir upp brýr til atvinnulífs og annarra skóla og er fulltrúi Listaháskóla Íslands í alþjóðlegu samstarfi á sviði tónlistar. Hann ber ábyrgð á gerð og eftirfylgni fjárhagsáætlunar og annarra áætlana sem varða deildina sérstaklega. Deildarforseti situr í framkvæmdaráði skólans og fagráði, og sinnir þeim trúnaðarstörfum fyrir skólann í heild sem rektor kann að fela honum.

Deildarforseti þarf að hafa ríka skipulags- og stjórnunarhæfileika, vera góður leiðtogi, lipur í samskiptum og eiga auðvelt með að starfa með öðrum.

Með umsókn skulu fylgja eftirfarandi gögn:

  • Yfirlit um menntun og námsferil, afrit af námsferilskýrslum og útskriftarskírteinum. 
  • Yfirlit yfir listrænan feril og störf umsækjanda, auk annarra þeirra upplýsinga sem tengjast listsköpun hans og starfi.
  • Yfirlit um stjórnunarreynslu og leiðtogastörf.
  • Stutt greinagerð um kennslustörf í háskóla.
  • Yfirlit um félags- og stjórnunarstörf, auk annarra starfa á vettvangi lista og menningar, s.s. þáttöku í val- og dómnefndum, setu í stjórnum félaga, fyrirtækja og/eða stofnana.
  • Upplýsingar um rannsóknir, ritsmíðar, og/eða opinbera fyrirlestra sem tengjast faginu og byggja á sérþekkingu umsækjanda á sviði tónlistar.
  • Frumrit/afrit af umfjöllun um verk og störf umsækjenda í tímaritum, bókum, tónlistarútgáfum eða öðrum opinberum miðlum.
  • Meðmæli eða umsagnir um fyrri störf umsækjanda.

Að auki er gert ráð fyrir að umsókn fylgi greinagerð, að hámarki 1500 orð, þar sem umsækjandi lýsir viðhorfum sínum til háskólamenntunar í listum, framtíðarsýn sinni fyrir tónlistardeildina og þeim stefnumótandi áherslum sem hann myndi vilja hrinda í framkvæmd yrði hann ráðinn til starfsins. 

Rektor ræður í starfið í samráði við stjórn skólans að undangengnu mati dómnefndar sem dæmir um hæfi umsækjenda í samræmi við reglur um veitingu akademískra starfa við Listaháskóla Íslands, sjá nánar á heimasíðu skólans, reglur um veitingu akademískra starfa:

Umsóknir skulu merktar viðkomandi starfi. Þeim ber að skila á aðalskrifstofu skólans Þverholti 11, 105 Reykjavík, eigi síðar en þriðjudaginn 15. apríl. Umsóknargögnum skal einnig skila á stafrænu formi (t.d. á USB lykli).
Rektor veitir frekari upplýsingar sé þess óskað. Gert er ráð fyrir að deildarforseti hefji formlega störf við upphaf næsta skólaárs, eða 1. ágúst 2014. Farið verður með umsóknir sem trúnaðarmál.  Skólinn áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Listaháskóli Íslands er sjálfseignarstofnun með viðurkenningu á fræðisviðinu listir. Skólinn starfar í fimm deildum, myndlistardeild, hönnunar- og arkitektúrdeild, tónlistardeild, sviðslistadeild, og listkennsludeild. Starfsstöðvar skólans eru þrjár við Þverholt, Sölvhólsgötu og Laugarnesveg í Reykjavík. Rektor er Fríða Björk Ingvarsdóttir.