Fjórtán nemendahópar hafa undanfarið unnið með mismunandi samfélagshópum og samtökum að því að bæta samfélagsleg mein á Íslandi. Hver hópur samanstendur af nemendum á MA-stigi sem leiða hópinn og nemendum í arkitektúr, fatahönnun, vöruhönnun og grafískri hönnun á BA-stigi. 

Markmið námskeiðsins er að styrkja samstarf milli mismunandi greina, koma á samstarfi við minnihlutahópa og almenning og hafa þannig jákvæð áhrif á samfélagið. Hönnun er rannsóknarferli sem getur virkað sem afl breytinga. Samfélagsleg hönnun snýst um að setja fólkið í fyrsta sæti og hafa í huga þau áhrif sem hönnun, sköpun og framleiðsla geta haft á samfélagið.

Námskeiðinu lýkur með kynningu á verkefnum hópanna þann 15. maí og er það lokahnykkurinn á sex vikna ferli. 56 nemendur frá sautján löndum munu kynna þá vinnu sem farið hefur fram undir handleiðslu 20 leiðbeinenda.