Skáldsaga Hallgríms Helgasonar Konan við 1000° vakti mikla athygli þegar hún kom út árið 2011 og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Hallgrímur hefur nú skrifað nýtt leikverk byggt á bókinni, í samvinnu við Unu Þorleifsdóttur leikstjóra og Símon Birgisson dramatúrg. Leikritið verður frumsýnt í Kassanum í Þjóðleikhúsinu föstudaginn 26. september.

Konan við 1000° lýsir ótrúlegri ævi einstakrar konu sem upplifði umrót og hörmungar tuttugustu aldarinnar víða um lönd og endaði ævina í íslenskum bílskúr. Eða eins og hún  orðar það sjálf: „Ég var svo ljónheppin að fá að vera barn á tímum fasismans og gamalmenni á tímum græðginnar.“

Herbjörg María Björnsson átti viðburðaríka daga. Frá bernsku í Breiðafirði til stríðsloka í Berlín, frá kvöldverði á Bessastöðum til barnsmissis í Buenos Aires... og varð á endanum útlagi í eigin landi, í bílskúr í austurbæ Reykjavíkur.

Sagan byggir að hluta til á sönnum atburðum en rétt eins og skáldsagan tilheyrir leikgerðin skáldskapnum fyrst og fremst.

Þess má geta að skáldsagan hefur verið þýdd á níu tungumál og hvarvetna hlotið góða dóma og viðtökur. Hún hefur meðal annars hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar í Frakklandi og á Spáni.

Leikstjóri sýningarinnar er, sem fyrr segir,  Una Þorleifsdóttir, en fyrsta leikstjórnarverkefni hennar í  Þjóðleikhúsinu, Harmsaga, var frumsýnt á liðnu hausti og vakti mikla athygli. Sýningin var valin til sýninga á stórri alþjóðlegri leiklistarhátíð, World Stages, sem haldin var í Kennedy Center í Washington í mars síðastliðnum. 

Það eru Guðrún Snæfríður Gísladóttir og Elma Stefanía Ágústsdóttir sem fara með hlutverk Herbjargar Maríu Björnsson, en aðrir leikarar í sýningunni eru Baldur Trausti Hreinsson, Edda Arnljótsdóttir, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Pálmi Gestson og Snorri Engilbertsson.

Leikgerð bókarinnar vann Hallgrímur Helgason, í samvinnu við Unu Þorleifsdóttur og Símon Birgisson dramatúrg.

Tryggvi M. Baldvinsson, deildarforseti tónlistardeildar Listaháskólans semur tónlist fyrir sýninguna, Eva Signý Berger gerir leikmynd og Agnieszka Baranowska búninga. Magnús Arnar Sigurðarson hannar lýsingu og Kristinn Gauti Einarsson sér um hljóðmynd. 

Frumsýning verður í Kassanum í Þjóðleikhúsinu þann 26. september.