Harmsaga er fyrsta leikrit Mikaels Torfasonar í Þjóðleikhúsinu, en hann hefur áður sent frá sér fjölda skáldsagna, leikrit og kvikmyndahandrit.  Una Þorleifsdóttir leikstýrir verkinu en þetta er frumraun hennar við leikhúsið. Una hefur áður leikstýrt sýningum við Listaháskóla Íslands auk þess sem hún leikstýrði Nú er himnezka sumarið komið sem sýnt var á Árbæjarsafni í apríl síðastliðnum.

Harmsaga er nútímaleg ástarsaga um allt það sem heppnaðist en líka allt sem fór úrskeiðis. Í verkinu er dregin upp mynd af ungum hjónum sem reyna hvað þau geta að bjarga hjónabandinu sem er að tortíma þeim. 

Með hlutverk ungu hjónanna fara þau Snorri Engilbertsson og Elma Stefanía Ágústsdóttir en Elma Stefanía útskrifaðist síðastliðið vor frá leiklistar- og dansdeild Listaháskóla íslands og þetta er því hennar fyrsta hlutverk. 

Höfundur leikmyndar og búninga er Eva Signý Berger.  Magnús Arnar Sigurðarson sér um lýsingu.  John Grant semur tónlistina en höfundur hljóðmyndar er Kristinn Gauti Einarsson.