Miðvikudaginn síðastliðinn luku nemendur á fyrsta ári í grafískri hönnun seinni hluta námskeiðisins Grafísk hönnun og aðferðafræði þar sem umfjöllunarefnið er formfræði leturs og týpógrafía. Nemendur gerðu margskonar tilraunir með letur sem myndmál og skoðuðu hlutverk leturs sem boðmiðils. 

Lokayfirferð í námskeiðinu Arkitektúr og aðferðafræði hjá fyrsta árs nemendum í arkitektúr fór fram á föstudaginn en í námskeiðinu er fjallað um grundvallaratriði arkitektúrs og hönnunarferlið sem einkennir arkitektúr. Unnið er með helstu grunnhugtök fagsins og helstu miðlunarverkfæri fagsins, til dæmis módel. Í lokahluta námskeiðsins unnu nemendur undir stjórn Hólmfríðar Ósmann Jónsdóttur og Hrefnu Björgu Þorsteinsdóttur frá Arkibúllunni undir yfirskriftinni Draumarými.

Nemendur á fyrsta ári í fatahönnun hafa undanfarnar vikur verið í námskeiði sem kallast Fatahönnun og aðferðafræði og fjallar, eins og nafnið gefur til kynna, um helstu undirstöðuatriði greinarinnar og uppbyggingu hönnunarferlis. Námskeiðinu lauk svo á föstudaginn með kynningu nemenda á fyrstu fatalínunni sem þau hanna í náminu. 


Nemendur á fyrsta ári í vöruhönnun luku námskeiðinu Ferli skapandi hugsunar þar sem einblínt er á höfundinn í samtali við efni og tækni til sköpunar á sem víðastan hátt. 


Michael Berkowitz fatahönnuður kom til landsins til að kenna hönnun íþróttafatnaðar, eða fatnaðar fyrir hreyfingu og hraða. Námskeiðið stóð í eina viku og gaf Eurojersey efni til verkefnisins sem nemendur á öðru ári í fatahönnun glímdu við. Sérstök áhersla var lögð á samvinnu við hönnun línu og gerð frumgerða af langerma íþróttatoppum. Óhætt er að segja að verkefnið hafi verið skemmtilegt, krefjandi og vel af hendi leyst.


Nemendur á öðru ári í grafískri hönnun luku námskeiðinu Tækni og upplýsingar með verkefni í upplýsingahönnun við hressilega yfirferð á föstudaginn. Í námskeiðishlutanum eru grunnþættir upplýsingahönnunar kynntir fyrir nemendum og áhersla lögð á að nemendur tileinki sér röksemdafærslu þegar kemur að ákvarðanatöku í úrlausn stærri verkefna. 


Annars árs nemendur í vöruhönnun sýndu afrakstur námskeiðisins Tækni og menning sem er seinni hluti tvíþætts vinnustofunámskeiðis. Í fyrri hluta þess skoða nemendur matvælaframleiðslu og velja sér menningarafkima í tengslum við mat sem þau svo rannsaka. Í þessum seinni hluta námskeiðisins vinna þau úr rannsókninni og miðla henni með valinni tækni með það að leiðarljósi að hreyfa við samfélaginu. 

Þriðja árs nemendur í fatahönnun luku við námskeiðið Rannsókn sem er undirbúningur fyrir útskriftarverkefni þeirra og fyrsti liðurinn í hönnunarferli útskriftarlínunnar. Nemendur hafa farið um víðan völl í leit að innblástri og mikil áhersla lögð á persónulega sýn hvers og eins. Michael Berkowitz sem kenndi við deildina sem gestakennari í síðustu viku var viðstaddur yfirferðina en hér fyrir miðri mynd má sjá hann tjá sig um verk nemanda.

Einnig má geta þess að á föstudaginn voru lokaskil á BA-ritgerðum nemenda á þriðja ári og við óskum þeim til hamingju með þann áfanga.