Sýningin Vital Echo opnaði 17. nóvember í Künstlerhaus Bethanien Berlín. Hún var skipulögð af sýningarstjóra og forstöðumanni Künstlerhaus Bethanien, Christoph Tannert og er haldin til heiðurs listamanninum Bernd Koberling. Kristján Steingrímur Jónsson, fyrrverandi deildarforseti myndlistardeildar er á meðal þeirra 12 fyrrum nemenda Bernds Koberlings sem eiga verk á sýningunni ásamt honum. Listamennirnir voru valdir úr hópi 100 nemenda Koberlings en hann starfaði sem prófessor í 30 ár við Listaháskólana í Frankfurt, Hamborg og Berlín.

Bernd Koberling er mikils metinn þýskur listamaður með áralöng tengsl við Ísland. Verk hans eru að stórum hluta unnin út frá íslenskri náttúru. Kristján Steingrímur var  nemandi Koberling 1983 til 1987 í Hamborg. Künstlerhaus Bethanien hefur gefið út veglega sýningarskrá með myndum af verkum listamannana og textum um verk þeirra.