Á hönnunarvikunni munu íslenskir og finnskir hönnuðir hefja sambúð í fallegri íbúð í miðbæ Stokkhólms, sem verður í senn sýningar- og viðburðarrými. Heimilið kemur til með að endurspegla norræna lifnaðarhætti, en allt innbú samanstendur af framúrskarandi hönnunarmunum frá báðum löndum. Gestum og gangandi verður velkomið að banka uppá og í raun verður heimilshald eins nálægt og það gerist í raun en haldnir verða viðburðir eins og innflutningspartí, matarboð, veislur og eftirpartí.


Þátttakendur í verkefninu fyrir Íslands hönd kenna margir hverjir við Listaháskólann eða hafa numið við hann. Má þar fyrst nefna þau Garðar Eyjólfsson, lektor og fagstjóra í vöruhönnun, Tinnu Gunnarsdóttur aðjúnkt í vöruhönnun og Lindu Árnadóttur lektor í fatahönnun. Aðrir þátttakendur í verkefnu eru Katrín Ólina, Þórunn Arnadóttir, Vík Prjónsdóttir, Brynjar Sigurðarson, Dögg Design, Siggi Eggertsson, Færið, Sigga Heimis, Hanna Dís Whitehead, HAF Studio, Hugdetta, Scintilla, Snæfríð & Hildigunnur, Ihanna, Sigga Rún, Anna Thorunn, Studio Bility, GO FORM, Berlinord, Marymary, Postulína, Umemi, Leynivopnið, Volki, Águsta Sveinsdóttir, Runa Thórsdóttir & Hildur Steindórsdóttir, STAKA, Kría Jewelry og Fiona Cribben.


WE LIVE HERE er unnið af Hönnunarmiðstöð Íslands og Design Forum Finland í samstarfi við Codesign, Stockholm Design Week, Stockholm Furniture & Lights Fair og Svensk Form. Sýningastjórar eru hönnuðirnir Elina Aalto og Marika Tesolin frá FROM og Hlín Helga Guðlaugsdóttir. Sanna Gebeyehu frá Codesign fer með listræna stjórnun verkefnisins og grafíkin er í höndum Sigga Odds.