Fornafn: 
Atli Ingólfsson

Eftir tónsmíðanám í Reykjavík, Mílanó, Siena og París settist Atli Ingólfsson að í Bologna á Ítalíu og starfaði um árabil nánast eingöngu við tónsmíðar. Árið 2006 flutti hann aftur til Íslands og hefur síðan sinnt kennslu meðfram tónsmíðunum. Hann var ráðinn prófessor við Listaháskóla Íslands árið 2016.

Verk Atla skipta tugum og eru af öllu tagi: Einleiksverk, kammerverk, söngverk, hljómsveitarverk, konsertar og óperur. Þau hafa verið pöntuð og flutt víða um Evrópu en meðal þeirra sem hafa flutt þau eru Ensemble Intercontemporain, Ensemble l’Itinéraire, Les percussions de Strasbourg, Arditti kvartettinn, Oslo Sinfonietta, Symphoniorchester des Bayerischen Rundfunks, Orchester des Staatstheaters Cottbus, Avanti Chamber Orchestra, að ónefndum innlendum flytjendum eins og Caput og Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Casa Ricordi útgáfan í Mílanó hefur gefið nokkur verka Atla út á nótum og fjöldi þeirra hefur komið út á geisladiskum á Íslandi, Frakklandi, Ítalíu og Þýskalandi, en hjá BIS útgáfunni í Stokkhólmi kom út diskur helgaður verkum hans árið 2005.

Atli hefur ritað fjölda greina um tónlist og menningu og hafa þær meðal annars birst í Fréttablaðinu, Skírni og Þráðum (tímarit tónlistardeildar LHÍ) en auk þess gefið út Hljómamál, kennslubók í hljómfræði.
Nánar má lesa um starf Atla á ensku á heimasíðunni www.atli-ingolfsson.com

 

Staða: 
Deild á starfsmannasíðu: