Þórarinn Guðnason útskrifast frá tónsmíðadeild Listaháskóla Íslands í vor. Af því tilefni heldur hann útskriftartónleika þann 14. maí næstkomandi. Tóti er gítarleikari og lagasmiður hljómsveitarinnar Agent Fresco en hefur auk þess unnið með fjölda annarra listamanna. Hann stundaði nám í rafgítarleik í tónlistarskóla FÍH en áhuginn á tónsmíðum kviknaði út frá hljómsveitastarfinu. Með hljómsveit sinni hefur Tóti hlotið fjölda viðurkenninga á borð við plötu ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2016 og Krók Rásar 2 fyrir framúrskarandi lifandi flutning á árinu 2015.

Verkið „STACKS“ er óður til tónbilanna. Sé þeim staflað upp hverju fyrir sig gerast áhugaverðir hlutir sem nýttir eru sem efniviður verksins. Verkið er um 20 mínútur að lengd og er samið fyrir píanó kvintett. Guðni Franzson stjórnar en kvintettinn mynda þær:

Píanó: Anela Bakraqi
Fiðla: Sólveig Vaka Eyþórsdóttir
Fiðla: Herdís Mjöll Guðmundsdóttir
Víóla: Steina Kristín Ingólfsdóttir
Selló: Þórdís Gerður Jónsdóttir

Sérstakar þakkir fá Úlfar Ingi og Hróðmar fyrir handleiðsluna (og þolinmæðina) í gegnum námið.