Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Æfingar hafnar í Þjóðleikhúsinu hjá útskriftarárgangi leikaranema 2025

  • 25.mars 2025

Þá eru æfingar hafnar í Þjóðleikhúsinu hjá útskriftarárgangi leikaranema Listaháskóla Íslands 2025.

Þórunn Arna Kristjánsdóttir leikstýrir kraftmiklum útskriftarhópi leikarabrautar Listaháskóla Íslands þar sem nýjasta kynslóð leikhúslistafólks tekst á við söngleiknn Leg eftir Hugleik Dagsson og Flís sem var fyrst frumsýndur í Þjóðleikhúsinu haustið 2007 við miklar vinsældir.

Leg gerist á Íslandi í framtíð sem eitt sinn var fjarlæg og dystópísk en á skuggalega vel við samtíma okkar. Segja má að framtíðarsýn Hugleiks hafi að mörgu leyti ræst, við sækjumst flest eftir ást og viðurkenningu á samfélagsmiðlum á meðan það verður sífellt flóknara að vera til í raunveruleikanum. Pressan um að líta óaðfinnanlega út, eiga fallegasta heimilið, flottustu vinnuna og skemmtilegustu vinina verður sífellt meiri. En hvað af þessu skiptir raunverulegu máli?

Útskriftarárgangur leikarabrautar LHÍ 2025 eru: Elva María Birgisdóttir, Helga Salvör Jónsdóttir, Hrafnhildur Ingadóttir, Ingi Þór Þórhallsson, Katla Þórudóttir Njálsdóttir, Kristinn Óli Sigrúnarson Haraldsson, Mímir Bjarki Pálmason, Sólbjört Sigurðardóttir og Stefán Kári Ottósson. Einnig útskrifast Salka Gústafsdóttir en lokaverkefni hennar er Stormur sem sýnt er í Þjóðleikhúsinu.

Leg verður frumsýnt í Kassanum í maí nk.

Nánari upplýsingar koma inn von bráðar á miðla Listaháskóla Íslands og Þjóðleikhússins.

 

Ljósmynd: Owen Fiene