Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Björk sæmd heiðursdoktorsnafnbót

  • 17.júní 2023

Á útskrift Listaháskóla Íslands sem fram fór í Silfurbergi, Hörpu, þann 16.júní 2023, var Björk Guðmundsdóttir sæmd heiðursdoktorsnafnbót við skólann. Hún hlýtur þessa sæmd fyrir listrænt framlag sitt. Þetta er í annað sinn í sögu LHÍ sem nafnbótin er veitt.

Nafnbótina heiðursdoktor má veita þeim sem skólinn vill heiðra fyrir einstakt framlag til lista og menningar. Með valinu skapast tækifæri fyrir skólann til að sýna viðkomandi virðingu fyrir farsælt starf og mikilsvert framlag til fræðasviðs lista. Þeir sem hljóta þessa sæmd skulu hafa áorkað mikilsverðu starfi og njóta virðingar á sínu sviði, ýmist sem listamenn, fræðimenn eða hvers kyns leiðtogar á sviði menningar, lista eða listmenntunar.

Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskólans, flutti ræðu við tilefnið og fór yfir feril Bjarkar, sem svo sannarlega er ekki einhöm – heldur miklu frekar náttúrafl.  “Þar fyrir utan er hún enginn venjulegur tónlistarmaður og um hana virðast gilda önnur lögmál en flesta. Sem sólólistamaður hefur hún stöðugt haldið áfram að endurnýja tengingu sína við tónsmíðarnar og eigin ímynd. Í hvert skipti sem hún sendir nýtt sköpunarverk frá sér, færir hún okkur óvæntan og nýjan heildstæðan heim.”

Á útskriftarathöfninni voru flutt tvö verk eftir Björk. Annars vegar Atopos í flutningi Murmura og hins vegar tabula rasa í flutningi viibra.

Við tilefnið fékk Björk pendúl hannaðan af Tinnu Gunnarsdóttur, vöruhönnuði, og fyrrverandi prófessor í hönnunardeild, og heiðursskjal hannað af Guðmundi Oddi, fyrrverandi prófessor í hönnun- og arkitektúrdeild við LHÍ.

Ræða Fríðu Bjarkar Ingvarsdóttur, rektor, við veitingu heiðursdoktorsnafnbótar 
Kæru gestir: Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum að tónlist Bjarkar Guðmundsdóttur sveif hér yfir vötnum rétt í þessu í flutningi Murmura sem flutti verkið Atopos. Það er ekki fyrir neina tilviljun, heldur vegna þess að Listaháskólinn sæmir nú í fyrsta sinn einstakling heiðursdoktorsnafnbót, fyrir listrænt framlag sitt, eitt og sér.

Og það er okkur sérstakur heiður að Björk skuli vilja þiggja þennan virðingarvott sem tákn um þakklæti okkar fyrir öll hennar ómetanlegu sköpunarverk.

Höfundar skjals og grips  sem fylgja nafnbótinni eru þau Guðmundur Oddur Magnússon – Goddur –  og Tinna Gunnarsdóttir, bæði fyrrverandi prófessorar við hönnunardeild Listaháskólans, sem hönnuðu heiðursskjal og heiðursgripinn, pendúlinn, af þessu tilefni.

Og þá að listamanninum Björk. Allt frá því hún kom fram á sjónarsviðið, kornung, hefur hún verið einstaklega trú sinni eigin tilfinningu fyrir frumleika í sköpun og tjáningu. Hún hefur aldrei verið sporgöngumanneskja heldur unnið sem frumkvöðull og farið eigin leiðir við kannað nýja heima.

Það er ekki heiglum hent að rekja feril hennar í stuttu máli þannig að víðfeðm áhrifin komi í ljós. En ég gríp niður í nokkra þætti sem ekki gætu sameinast í neinum öðrum en þessum

Flest þekkjum við þá sögu er Björk beinlínis setti íslenska tónlist á heimskortið. Þótt tónlist annarra samlanda okkar hafi vitaskuld ratað út fyrir landsteinana og hrifið marga, þá var hún samt einfaldega fyrst til að ryðja veg íslenskrar tónlistar inn í kastljós heimsins alls, sem sannarlega hefur einnig nýst þeim sem komið hafa í kjölfarið.

Þar fyrir utan er hún enginn venjulegur tónlistarmaður og um hana virðast gilda önnur lögmál en flesta. Sem sólólistamaður hefur hún stöðugt haldið áfram að endurnýja tengingu sína við tónsmíðarnar og eigin ímynd. Í hvert skipti sem hún sendir nýtt sköpunarverk frá sér, færir hún okkur óvæntan og nýjan heildstæðan heim.

Manni virðist hún aldrei horfa til baka eða höggva í sama knérunn, og í þessu stöðuga listræna umbreytingarferli er kannski táknrænt að Björk taki hamskiptum; myndhverfast í fugl, svepp eða blóm (svo dæmi séu nefnd) fyrir tilstilli ótrúlegra búninga og sterkrar sjónrænnar framsetningar.

Þannig skapar hún tenginu við það sem býr innra með okkur öllum, sem brotabrots af gríðarstórri og fjölbreyttri heild tilvistarinnar, í óræðri skörun fantasíu og lífríkis jarðar.

En Björk hefur ekki látið þar við sitja þegar kemur að náttúrunni. Náttúran er ekki einungis yrkisefni hennar heldur einnig hugsjón. Hún barðist til að mynda af einurð gegn  Kárahnjúkavirkjun og hefur fengið til liðs við sig listamenn af öllum toga í baráttunni gegn skemmdarverkum á náttúrunni, af manna völdum. Nú síðast hefur hún beitt sér gegn tilgangslausu og grimmilegu hvaladrápi hér á landi, sem við ættum öll að sameinast um að stöðva með henni.

Björk er líka rannsakandi; hún rannsakar þau öfl sem knýja náttúruna og gangverk skynjunarinnar áfram. Það kom berlega í ljós í öllum þeim gríðarlega metnaði sem ýtti Biophiliu úr vör; því einstaka menntaprógrammi fyrir börn og ungmenni. Og þar fékk hún einn merkasta náttúrukönnuð seinni tíma til liðs við sig, David Attenborough, sem eitt og sér sýnir hversu djúpt hennar faglega orðspor ristir.

Hún hefur líka valið sér óvenjulega leið við að koma sköpunarverki sínu út í kosmosið. Hún semur, syngur, útsetur og framleiðir allt sitt efni sjálf – auk þess að vera sinn eigin útgefandi. Það eitt og sér skapar henni sérstöðu og ómetanlegt frelsi til að hlýða köllun sinni til hins ítrasta, óháð þeim öflum markaðarins sem annars gætu hamlað hennar listræna frelsi og getu til að þenja mörk tjáningarinnar.

Verk hennar og umgjörð þeirra sprengja þannig öll form og vinna í mörgum lögum þvert á allar greinar lista, auk tengingar við heimspekilegan innblástur og vísindi.

Og talandi um frumleika; Björk hefur staðið fyrir ótrúlegum tilraunum á sviði; spilað akústíska raftónlist, sem stýrt er með tölvum, látið teslaspólu spila á eldingar og notað margvísleg önnur, einstök tilraunahljóðfæri. Og af því hún fær hér pendúl til eignar, er gaman að segja frá því að hún hefur líka látið pendúla búa til hljóð með því að plokka strengi á hörpu.

Björk hefur unnið að kvikmyndalist og tekið þátt í myndlistarverkefnum. Og fyllti t.d. MoMa í NY af verkum sínum á sýningu sem vakti heimsathygli. Hún hefur gefið út bækur, eina t.d. með bréfaskriftum sínum við einn helsta hugsuð samtímans, Timothy Morton.

Hún hefur auðvitað fengið tilnefningar til allra helstu verðlauna sem hægt er að fá, fyrir stórkostlegt framlag sitt í ólíkum listgreinum – og unnið fleiri verðlaun en hægt væri að telja upp hér.

Í upphafi þessarar athafnar vísaði ég til lýðræðisins og hlutverks listanna í því að berjast fyrir sannleikanum og mynda samstöðu gegn skoðanakúgun. Björk er ein þeirra sem hefur komist í heimsfréttirnar og tekið töluverða áhættu fyrir baráttu sína í þágu lýðræðisins. Hver man ekki eftir hugrekki hennar þegar hún kallaði eftir frelsi Tibets við lok flutnings síns á laginu „Declare Independence“ á tónleikum í Sjanghæ, til að mótmæla yfirgangi Kínverja í garð Tíbeta.

Það er sama hvar borið er niður í listum, heimspekilegri umræðu og vísindum samtímans – Björk hefur tyllt þar niður fæti. Saga hennar er einfaldlega samofin samtímasögu heimsmenningarinnar.

Ég ætla að biðja Björk Guðmundsdóttur, að koma hér upp á sviðið og taka við þessum gripum, til marks um þakklæti Listaháskólans og virðingu fyrir starfi hennar, og ekki síst óbilandi hugrekki við að miða list sinni til okkar allra og kveikja um leið skilning okkar á tilvistinni.