Kl. 14.00–15.30 Stofa 55 (3. mars)
Í málstofunni verða haldin þrjú erindi sem tengjast öll íslenskri dægurtónlist og minni. Leitast er við að skoða þema ráðstefnunnar út frá ólíkum sjónarhornum sem eiga sér þó skurðpunkt í virkni minninga, upprifjunar og fortíðarþrá gagnvart dægurtónlist.  
 
Arnar Eggert Thoroddsen: „Ég gleymi því aldrei þegar ég...“: Fortíðarþrá á samfélagsmiðlum (IS)
Minningar og þá sérstaklega hið afleidda og tengda fyrirbæri fortíðarþrá/nostalgía spilar mikið inn í neyslu lista og er dægurtónlistin þar síst undanskilin. Í þessum fyrirlestri munum við skoða hvernig þessi þrá birtist í samfélags- og samtímamiðlum, veri það Facebook, youtube eða í skyldum miðlum.
 
Í umræðum um tónlist - hvort heldur í þráðum á einkaveggjum notenda, í athugasemdaþráðum við myndbönd á youtube eða í sérstaklega stofnuðum hópum um einhvern anga tónlistarinnar - er einatt að finna ástríðufullar og tilfinningahlaðnar umræður um tónlist sem orkaði sterkt á notendurna í fyrndinni, vekur með þeim samkennd og sýnir um leið fram á sterka þörf mannskepnunnar til að deila með sér og fá viðgjöf á það sem hún hefur ástríðu fyrir.
 
Dægurtónlistarblaðamaðurinn og menningarrýnirinn Simon Reynolds helgaði bók sína Retromania: Pop Culture's Addiction to its Own Past þessu efni og verður hún til grundvallar fyrirlestrinum. Einnig verður farið í raundæmi úr fórum fyrirlesara, nýlegar fjölmiðlarannsóknir á mætti og meginn hinna nýtilkomnu samfélagsmiðla og jafnframt sígildar félagssálfræðilegar kenningar sem undirstinga það sem í gangi er í þessum samskiptum.  
 
 
Þorbjörg Daphne Hall: Minni og mýtur: Hvernig Ísland birtist í Heima? (IS)
Fyrirlesturinn kannar hlutverk minnis í myndinni Heima: A Film by Sigur Rós. Eins og titill myndarinnar gefur til kynna þá býður hljómsveitin áhorfendum uppá innlit „heim“, þ.e.a.s. að kynnast Íslandi á þann hátt sem hljómsveitarmeðlimir sjá föðurland sitt fyrir sér. Í myndinni ferðast hljómsveitin um landið og heldur ókeypis tónleika fyrir gesti og gangandi. Til viðbótar við tónleika sjá áhorfendur margvísleg myndskeið af Íslandi og viðtöl við hljómsveitarmeðlimi sem veita myndinni ákveðið samhengi.
 
Margir tónleikanna áttu sér stað í íslenskri sveit og smærri bæjum sem ljær landinu sem birtist á tjaldinu strjálbýlt yfirbragð, en í lokin ferðast hljómsveitin til Reykjavíkur og heldur þar stórtónleika. Skoðað verður hvernig minni og þá sérstaklega fortíðarþrá leikur lykilhlutverk í myndinni og hvaða áhrif það hefur á þá birtingarmynd sem dregin er upp af Íslandi. Myndin verður meðhöndluð sem tilviksrannsókn sem gefur dæmi um það hvernig kvikmyndir (sem og aðrir miðlar) geta haft áhrif á mótun sjálfsmyndar þjóðar. 
 
 
Davíð Ólafsson: „Ég var hinn söngvarinn!“: Svipmynd af and-listamanni (IS)
Ef rýnt er í langan og fjölbreyttan ferill fjöllistamannsins og athafnamannsins Einars Arnars Benediktssonar síðustu fjóra áratugi má segja að segja að hann einkennist af einu orði, forliðnum and- (anti-). Í þessu erindi verður rýnt í fjölbreyttan feril Einars Arnar í þessu ljósi, sem and-tónlistarmaður (söngur og trompet), and-skáld (textasmíð), and-poppstjarna og síðast and-stjórnmálamaður.
 
Sérstök áhersla verður lögð á fagurfræði tónlistarmannsins Einars Arnar eins og hún birtist í starfi hans innan hljómsveita eins og Purrkur Pillnikk, Sykurmolana og Ghostigital. Leitast verður við að setja þá fagurfræði, og uppruna hennar í pönkmenningu 8. og 9. áratugarins, í samhengi við strauma í framsæknum listum á 20. öld sem kenndir eru við framúrstefnu (avant-garde). 
 
 

FLÝTILEIÐIR

 

Nánari upplýsingar / contact info: 

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir