Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Edda Björg og Vigdís Hrefna til LHÍ

  • 27.júlí 2023

Á dögum var tilkynnt um tvær akademískar ráðningar á sviði kvikmyndalistar, tónlistar og sviðslista.

Edda Björg Eyjólfsdóttir hefur verið ráðin í stöðu dósents við sviðslistadeild. Hún mun gegna hlutverki fagstjóra leikaranáms á haustönn 2023.

Vigdís Hrefna Pálsdóttir hefur verið ráðin í stöðu dósents við sviðslistadeild. Hún mun gegna hlutverki fagstjóra leikaranáms á vorönn 2024.

Um Eddu Björg:
Edda Björg Eyjólfsdóttir útskrifaðist árið 1998 með leikarapróf frá Leiklistarskóla Íslands. Frá því að hún lauk leiklistarnámi fyrir 25 árum hefur hún leikið í fjölda sviðsverka, flestum í Þjóðleikhúsinu eða Borgarleikhúsinu. Hún hefur meðal annars leikið veigamikil hlutverk í Hamingjudagar, Ríkharður III, Kartöfluæturnar, Haukur og Lilju, 4:48 Psychosis, Kardemommubæinn, Leg og Túskildingsóperunni. Hún hefur leikið í fjölda sjónvarpsþáttaraða, kvikmynda og oft tekið þátt í áramótaskaupinu. Má þar nefna Aftureldingu, Ófærð, Pabbahelgar, Síðasta saumaklúbbinn og Venjulegt fólk. Edda Björg hefur einnig unnið í úrvarpsleikhúsi og við talsetningu fjölda teiknimynda, m.a. er hún rödd Dóru í myndinni Nemo. Hún stofnaði Edda Productions sem hefur sett upp sýningar sem allar vöktu verðskuldaða athygli, þar má nefna 4:48 Psychosis, Hauk og Lilju, og Venus í feldi. Hún stofnaði einnig leikhópinn Aldrei óstelandi ásamt Mörtu Nordal, en sá leikhópur hefur starfað við góðan orðstír og unnið brautryðjandastarf við endurvakningu íslenskrar leikhúsklassíkur. Þá hefur hún leikstýrt sýningum undir eigin merkjum með fyrrnefndum leikhópnum auk þess sem hún hefur leikstýrt sýningum á háskólastigi og kennt leiklist á öllum skólastigum. Á meðal leikstjórnarverkefna má nefna Venus í Feldi (2022) og Abigail heldur partí (2023). Meðal sýninga leikhópsins Aldrei óstelandi má nefna Natan (2017), Ofsa (2015), Lúkas (2014) og Sjöundá (2012). Edda Björg hlaut Grímuverðlaunin 2021 sem leikkona í aðalhlutverki fyrir frammistöðu sína í verkinu Haukur og Lilja.

Um Vigdísi Hrefnu:
Vigdís Hrefna Pálsdóttir lauk MA gráðu í Theatre Making frá University of Kent árið 2020 og MA gráðu í Musical Theatre, frá Royal Conservatoire of Scotland árið 2007. Hún útskrifaðist með BFA gráðu í leiklist frá Listaháskóla Íslands árið 2002. Frá því Vigdís Hrefna útskrifaðist sem leikari fyrir rúmum tuttugu árum hefur hún leikið í fjölda sviðsuppsetninga, flestum í Þjóðleikhúsinu þar sem hún er fastráðin leikkona. Meðal hlutverka má nefna burðarhlutverk í Nokkur Augnablik um nótt (2022), Framúrskarandi vinkonu (2021), Súper (2019), Húsinu (2017), Sjálfstæðu fólki (2014) og Eldrauninni (2014). Hefur hún leikið fjölda burðarhlutverk í söngleikjum, t.d í Litlu Hryllingsbúðinni (2006), Oliver! (2009) og Vesalingunum (2013). Hún hefur leikið í tveimur verkum sem sýnd voru á Edinburgh fringe leiklistarhátíðinni (2007). Hún hefur leikið í fimm sjónvarpsþáttaröðum, þar á meðal Aftureldingu og Valhalla Murders og þremur kvikmyndum, þar á meðal Agnes Joy og Ungum. Hún hefur unnið við talsetningu og lestur fjölda hljóðbóka. Ljær hún t.a.m, Dóru landkönnuði og Mjallhvíti rödd sína. Vigdís leikstýrði Dr. Rung í Hljóðleikhúsi Þjóðleikhússins og æfðum leiklestri á Ímyndunarveikinni eftir Moliere, einnig í Þjóðleikhúsinu.

Við hlökkum innilega til samstarfsins við þær báðar og bjóðum þær velkomnar til Listaháskóla Íslands.