Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.
Skoða vefinn á Íslensku
Edda Rósa Gunnarsdóttir, meistaranemi í listkennsludeild, stundar viðbótardiplómanám í kennslufræðum.
Hún er á eins árs námsleið til kennsluréttinda sem er fyrir fólk með meistaragráðu í öðrum fögum en listum en Edda Rósa er með BA gráðu í uppeldis- og menntunarfræði og MA í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf og lauk því námi í júní 2024.
„Ég á tvo drengi fædda 1997 og 1999 með skoska manninum mínum, hef búið í Skotlandi og kynnst þeirra menningu,“ segir Edda Rósa en hún hefur enn fremur unnið hjá Hjallastefnunni síðan 2002 bæði í leik- og grunnskóla í ýmsum hlutverkum. „Ég hef verið að sjá um frístundastarfið og allt sem viðkemur börnum og foreldrum.“
En hvað varð til þess að hún valdi listkennsludeild?
„Vinkona mín hún Sif Gunnsteinsdóttir fór í listkennsludeildina fyrir nokkrum árum og var alltaf að gera svo skemmtilega hluti með skemmtilegu fólki. Ég hugsaði þá að ef ég ætlaði einhvern tíma að taka kennsluréttindanám þá væri það í LHÍ,“ segir Edda Rósa sem er ánægð með val sitt.
„Frábært nám, skemmtileg nálgun á kennslu, áhugaverðir og hæfileikaríkir samnemendur sem koma úr öllum kimum lista, fróðir og óhefðbundnir kennarar með sprengikrafts orku og ástríðu. Það eru einhverjir töfrar sem listafólk býr yfir.“
Þegar Edda Rósa er spurð hvað er framundan hjá henni stendur ekki á svörum.
„Lifa það af að vera í 100% námi með 100% vinnu án þess að fá magasár. Njóta augnablikanna í námi og starfi. Njóta þess að vera orðin amma. Njóta þess að vera mamma fullorðinna ungra manna. Njóta þess að daginn fer að lengja. Sem sagt NJÓTA,“ segir Edda Rósa en henni er það mikilvægt að huga vel að heilsu og velferð sinni.
„Ég ætla að njóta eins mikið og ég get að vera í náminu með samnemendum og kennurum og vera í núinu. Að námi loknu mun ég vera komin með leyfisbréf og kennararéttindi sem enginn getur þrætt við mig um og enginn getur pönkast í réttindunum mínum.“
Eddu Rósu langar að styðja við og vinna meira með foreldrum og er að reyna að finna leið til þess með skólanum sem hún vinnur í, að námi loknu.
„Draumurinn er að vera í miklum sveigjanleika og skapa vinnutíma minn sjálf. Ef ég gæti blandað saman hluta kennslu með yngsta stigi, ég elska að kenna 8-9 ára stúlkunum mínum eins og er, hluta með foreldrum og svo þarf alltaf að vera pláss til að skapa eitthvað sem ég veit ekki hvað er.“
„Ég er svo glöð að LHÍ opnaði fyrir aðra en listafólk í kennsluréttindanámið í LHÍ og ég er líka svo glöð að skólagjöldin eru þau sömu og í HÍ og því ekki hindrun til náms. Ég vil þakka fyrir samstarf við samnemendur og kennara. Haldið áfram að skapa og pæla, frábæru skapandi manneskjur!“