The critically acclaimed designer, Katrín Ólína Pétursdóttir, adressed graduates at the graduation ceremony this year. 
 
/
 
 
Katrín Ólína Pétursdóttir, hönnuður, flutti hátíðarræðu til nemenda á útskriftarathöfn skólans 2018. 
Hér er ræða hennar í heild sinni. 
 
 
 

Kæru nemendur, kennarar og allt starfsfólk Listaháskólans, aðstandendur, gestir, rektor. Þakka ykkur innilega fyrir þann heiður að bjóða mér hingað til að ávarpa þessa hátíðlegu samkomu við merkileg tímamót.

Ég á mér minningu um garð frá því ég var barn. Þegar ég finn lykt af mold jarðtengist ég, þegar ég sé ljósgræna græðlinga spretta, fyllist ég von, þegar ég sé tómata á grein eða kál í garði, fyllist ég öryggi, að það verði alltaf nóg. Eins og lífinu sjálfu, er auðvelt að líkja vinnu listamannsins við garðrækt því við erum jú að skapa eitthvað frá grunni, búa til, rækta upp af litlu fræi.

En vinna listafólks felur líka í sér ferðalag. Hvert verk sem búið er til, er ferð í sjálfu sér - og oft heill heimur sem opnast og verður til.

Sagt er að nú séuð þið að hefja ykkar ferð, með þessari útskrift, en ferðalag ykkar hófst fyrir löngu er ég sannfærð um og á degi sem þessum þegar talað er um nýtt upphaf, er líka mikilvægt að horfa til baka og muna. Ferðalög eru heillandi, sérstaklega úr fjarlægð og þau eru alls ekki alltaf skemmtiferðir. Það þarf hugrekki til að fara í ferð, því það er erfitt að halda út fyrir þægindarammann og yfirgefa það sem við þekkjum.“Vits er þörf þeim er víða ratar”.

Hvað rak ykkur af stað í þetta ferðalag er eins persónubundið og ferðin er margvísleg en mig grunar þó að þegar öllu er á botninn hvolft sé þar samt ákveðinn samnefnari á ferðinni sem er líklega sá að þið vonuðust og vonið enn að listin geti hjálpað ykkur að skilja ykkur sjálf betur og heiminn.

Það munu ekki allir skilja ferðalagið þitt, kannski bara örfáir, kannski enginn. Þú munt líka oft eiga erfitt með að skilja þitt eigið ferðalag.

Svo dæmi sé tekið, þá hafa mörg minna verkefna ekki hlotið hljómgrunn. En þetta eru oft þau verkefni sem hafa gefið mér hvað mest og hafa fært mig nær mér sjálfri. Eitt af þessum verkefnum vildi enginn gefa út. Það passaði ekki í neina hillu, það var ekki hægt að hengja á það merkimiða. En mér leið oft meðan ég var að vinna í því eins og ég væri fædd til þess eins að vinna það,  og ég vann í því í 3 ár. Ég fór í mikið innra ferðalag og það opinberaðist margt fyrir mér á meðan á því stóð. Átta árum síðar er kannski að opnast lítil leið úr óvæntri átt fyrir hluta af þessu verkefni og mér finnst það dálítið gaman.

Gerið tilraunir, haldið áfram og dæmið ykkur eða aðstæður ykkar ekki þótt hlutirnir gangi ekki upp.

Stundum passar það sem við gerum ekki inní í samtímann en þessi verkefni gætu átt erindi á öðrum vettvangi í öðrum tíma.

 

Verið í öllum bænum óhrædd við að gera mistök því af þeim lærir maður mest og þálfið ykkur þannig í að rísa úr öskunni sjálfum ykkur trú frekar en tíðarandanum.

 

Mér dettur í hug heilaga fólkið á Indlandi sem dustar líkama sína með ösku og með þeim gjörningi klæðist það ljóseldinum.

 

Og hvað með fegurðina? Reynið að uppgötva fínu blæbrigðin í henni sem ekki er hægt að greina niður og setja í orð eða hólf. Veltið fegurðinni fyrir ykkur, helst oft á dag. Verið opin fyrir henni. Látið hana koma ykkur í opna skjöldu, grípið andann á lofti og þakkið fyrir ef ykkur finnst eitthvað fallegt. Því það gæti verið tækifæri til að nálgast leyndardóm listarinnar og jafnvel lífsins sjálfs.

 

Að vera einn er auðvelt fyrir suma, en erfitt fyrir aðra. Þessi skapandi einvera sem er hluti af lífi listamannsins er þó einhver ótrúlegasta gjöf sem okkur er gefin, og að rækta þennan hæfileika hjálpar okkur að vaxa og verða við sjálf og gerir okkur án efa hæfari til að takast á við ýmsa erfiðleika í lífinu. Lærið að vera ein og sjálfum ykkur uppbyggileg og næg, en ég hvet ykkur til að leggja jafnmikið, ef ekki meira uppúr samskiptum og samvinnu við annað fólk. Því það er líka blekking að halda að við séum ein. Hugmyndir þínar eru sprottnar upp af og tengdar öðrum hugmyndum og minni sem er stærra en þitt eigið.

Ég hvet ykkur til að rækta samskipti, deila hugmyndum og finna leiðir til að tengja - því þannig komið þið fótunum undir hugmyndir ykkar.

 

 

Við stöndum hér og nú, með þessa klassísku fortíð, sem einkennist á margan hátt af efninu og handverkinu á bak við okkur. Hún er okkar bakland. Í tækninni og hraðanum sem hefur tekið yfir líf okkar, skynja margir hjá sér þörf á að finna ræturnar aftur. Kannski viljum við meðvitað eða ómeðvitað varðveita þekkingu sem er hætt við að muni tapast ef henni er ekki haldið við. Handverk hvers konar, getur hjálpað líkamlegu minni okkar að lifa, minninu um það hvernig hlutirnir voru gerðir úr efninu með hug og hönd.

En um leið erum við að búa til framtíðina. Stafræn tækni hefur verið með okkur í yfir 20 ár, og með henni getum við framleitt margslungin verk, við getum gert það sem áður voru fjarlægir draumar að veruleika. 

Enn er tilhneiging til að draga úr gildi og gjaldfella list sem búin er til með stafrænni tækni. Ég spyr, snýst listin ekki fyrst og síðast um upplifuna og áhrifin sem verkin leiða af sér, fremur en aðferðina og miðilinn sem er notaður til að búa hana til?

 

Þessi gamalgróni raunveruleiki, þar sem upplýsingar eru fastmótaðar - haldið í tíma og rými í bókum, á sviði, eða í myndum fjarlægist á meðan við byggjum heim þar sem upplýsingar og já, jafnvel menningin er fljótandi.

 

Á mörkum heima, á mörkum analogue og digital, á mörkum manns og vélar, á mörkum vitundar og orða, á mörkum vísinda og lista, á mörkum efnis og anda er bil. Þar sem heimurinn skiptir um fasa er þögn sem þið getið unnið inní.

 

Ímyndunaraflið er ykkar stærsta tromp.

Ég hvet ykkur til að þjálfa það stöðugt með því að vera forvitin, fabúlerandi og leitandi.

Reglulega þarf að endurhugsa og uppfæra aðferðir til að tjá upplifun okkar og hugmyndir um heiminn. Hvernig við náum til fólks. Lítið í kringum ykkur og hlustið. Það er allt á iðandi hreyfingu alls staðar. Aðferðir þróast og breytast. Byggið brýr, verið óhrædd við að blanda miðlum saman, látið rödd ykkar heyrast.

 

Listamenn eru sérfræðingar í að vinna með óvissuna og hið óþekkta. Og þið eruð verðandi meistarar í þeirri list. Listamenn sjá skapandi lausnir þar sem aðrir sjá hindranir. Ekkert er listamönnum óviðkomandi. Þeir láta sig tilveruna varða og benda á, gagnrýna og túlka í verkum sínum.

Listin hefur margt að kenna og ef hún hefur einhvern tíma verið þörf er ég sannfærð um að í framtíðinni verði hún nauðsyn. Áhrifamáttur listarinnar er ófrávíkjanleg stærð í þessari allsherjar jöfnu sem er heimurinn okkar.

Og nú standið þið á tímamótum… og þið hafið margt að segja og gefa / þar sem þið haldið áfram að móta skapandi farveg fyrir hugmyndir ykkar.

 

Megið þið halda áfram ykkar ferðalagi og Megið þið í gleði auðga heiminn með hæfileikum ykkar og sköpun. Ræktið ykkar garð og gerið líf ykkar að listrænum gjörningi. Til hamingju með þennan áfanga og Góða ferð!