This content is only available in english.
 
Alls tíu hugmyndir að leikverki fyrir útskriftarhóp leikarabrautar 2018 bárust í leikritasamkeppni Listaháskólans og Félags leikskálda og handritshöfunda. Hugmynd að leikverki eftir Kristján Þórð Hrafnsson var valið af dómnefnd og hefur Listaháskólinn gert samning við Kristján um uppsetningu á verkinu. Verk Kristjáns Aðfaranótt er áleitin rannsókn á árásargirni og ofbeldi sem á sér ólíkar birtingamyndir í samskiptum fólks og er um leið spegill á samskiptamynstur samtímans. Verkið gerist í næturlífi Reykjavíkur og varpar upp svipmyndum úr lífi og samskiptum ungs fólks sem tengjast hvert öðru með ólíkum hætti.
 
Efnistök Kristjáns eru áleitin og efnið aðkallandi;  í gegnum brot úr samtölum raðast upp mynd af ofbeldisglæp og spurningunni er varpað upp um hver sé fær um að fremja slíkan glæp.
 
Kristján Þórður Hrafnsson er fæddur árið 1968. Hann er ljóðskáld, skáldsagnahöfundur, leikskáld og þýðandi.
 Kristján Þórður stundaði nám í bókmenntum við The New School for Social Research í New York veturinn 1988-1989 og lauk B.A.-prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 1992. Hann lauk meistaraprófi í bókmenntum frá Sorbonneháskóla í París árið 1995.
 Hann hefur sent frá sér fjölda af ljóðabókum, skáldsögum, leikritum og þýtt verk höfunda á borð við Eric-Emmanuel Schmitt, Mike Leigh og Arthur Miller.
 Kristján Þórður hefur tvívegis verið tilnefndur til Grímunnar-Íslensku leiklistarverðlaunanna sem leikskáld ársins, fyrir Böndin á milli okkar árið 2005 og Fyrir framan annað fólk árið 2010, en uppúr síðarnefndu verki skrifaði Kristján ásamt Óskari Jónassyni handrit að samnefndri  kvikmynd. Myndin var frumsynd 2016.
 
Dómnefnd skipuðu Nanna Kristín Magnúsdóttir leikari og handritshöfundur, Stefán Jónsson, fagstjóri leikarabrautar og Steinunn Knútsdóttir deildarforseti sviðslistadeildar.
 
 
Sigurverk leikritunarsamkeppni Listaháskólans:
Við deyjum á Mars eftir Jónas Reyni Gunnarsson sýnt 2016
Spítalaskipið eftir Kristínu Ómarsdóttur sýnt 2005
Tattú eftir Sigurð Pálsson sýnt 2003
Íslands Þúsund Tár eftir Elísabeti Jökulsdóttur sýnt 2002
 
Önnur leikverk sem samin hafa verið fyrir útskriftarárganga leikarabrauta við Listaháskólann:
Bráðum hata ég þig eftir Sigtrygg Magnason sýnt 2010
Forðist okkur eftir Hugleik Dagsson sýnt 2005 í samstarfi við Common Nonesense