Elín Hansdóttir útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2003 og lauk meistaranámi við KHB-Weissensee í Berlín árið 2006. Þrátt fyrir ungan aldur á hún að baki áhugaverðan feril og hafa verk hennar vakið athygli á alþjóðlegum vettvangi. 

Innsetningar Elínar, sem byggðar eru fyrir tiltekin rými, taka á sig margvíslegar myndir. Nefna má hljóð- og/eða sjónrænar blekkingar, göng í ætt við völundarhús og byggingarfræðilega þætti sem myndast fyrir tilstilli hreyfingar. Með því að gjörbylta venjulegu rými í eitthvað sem tekur öllum væntingum fram og virðist einungis eiga sér stað á tilteknu augnabliki í tíma, skapar hún heildstæða heima sem virðast lúta sínum eigin lögmálum. Elín hefur skapað innsetningar fyrir nokkur aþjóðleg sýningarrými, svo sem Frieze Projects, ZKM í Karlsruhe, Den Frie Udstillingsbygning, Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur og KW - Institute for Contemporary Art Berlin. 

Í fyrirlestrinum mun Elín fjalla um vinnuferlið sem liggur að baki verka hennar, um það hvernig eitt leiðir af öðru, um ójafnvægi og ófullkomleikann. 

Fyrirlesturinn fer fram á íslensku og er aðgangur ókeypis.

Opnir fyrirlestrar í myndlistardeild

Á ári hverju heldur fjöldi lista- og fræðimanna erindi um verk sín og hugmyndir á fyrirlestrum í myndlistardeild. Fyrirlestrarnir eru opnir almenningi og er ætlað að kynna margþætt viðfangsefni úr heimi lista og samtímamenningar og hvetja til umræðu um þau. Fyrirlestrarnir eru mikilvægur þáttur í starfsemi deildarinnar og eru ætlaðir til að efla tengsl milli nemenda og starfandi lista- og fræðimanna. 

Fyrirlestrar í myndlistardeild fara fram í fyrirlestrarsalnum að Laugarnesvegi 91. Þeir eru opnir almenningi og aðgangur ókeypis.