Tinna Gunnarsdóttir vöruhönnuður og aðjúnkt við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands varði á dögunum MRes-ritgerð sína og verkefni við University of Brighton.

 

MRes stendur fyrir Master in Research en hún framkvæmdi svokallaða hönnunarmiðaða rannsókn. Í stuttu máli felur það í sér að spurningunni sem varpað er fram í ritgerðinni er svarað með hönnunargrip eða -gripum. Hönnunin drífur þannig rannsóknina áfram.

Í ritgerðinni varpar Tinna fram spurningunni „How can product design interventions enrich the experience of dwelling in the wild terrain in Iceland, with minimal impact on the environment?“ og veltir fyrir sér hvernig hægt sé með inngripi vöruhönnuðarins að auðga upplifun fólks í villtri náttúru Íslands með sem minnstri umhverfisröskun. „Með gripunum bý ég til staði, kennileiti, sem fólk getur heimsótt aftur og aftur og vil þannig fá fólk til að mynda dýpri tengsl við staðinn,“ segir Tinna en gripirnir eru sérhannaðir fyrir eyðijörðina Möðruvelli í Héðinsfirði.

Miðvikudaginn 26. nóvember kl. 12.10 heldur Tinna Gunnarsdóttir fyrirlestur um rannsóknarverkefni sitt í fyrirlestraröð Hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands, SNEIÐMYND í Þverholti 11, fyrirlestrarsal A.