Fimmtudaginn 15. janúar stíga sigurvegarar í einleikarakeppni Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Listaháskóla Íslands á svið í Eldborgarsal Hörpu.

Árlega fer fram keppni ungra einleikara sem Listaháskóli Íslands stendur að í samvinnu við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Keppnin er opin tónlistarnemendum á fyrsta háskólastigi, óháð því hvaða tónlistarskóla þeir sækja. Í ár valdi dómnefndin fjóra sigurvegara til að koma fram með Sinfóníuhljómsveitinni.

Þau eru: 

Baldvin Oddsson, trompet

Erna Vala Arnardóttir, píanó

Lilja María Ásmundsdóttir, píanó

Steiney Sigurðardóttir, selló

Það er stór stund þegar vinningshafar stíga á svið með hljómsveitinni en á þessum tónleikum ríkir ávallt gleði yfir þeim krafti sem býr í hinu unga tónlistarfólki. Sinfóníuhljómsveitin og Listaháskóli Íslands leiða saman hesta sína og styðja við okkar efnilegasta tónlistarfólk á leið þess inn í heim atvinnumennskunnar. Á sama tíma fá áheyrendur tækifæri til að fylgjast með þroska og framförum þessa unga listafólks.

Einleikarar og efnisskrá:  

Baldvin Oddsson 

Consertino eftir André Jolivet

Erna Vala Arnardóttir 

Píanókonsert í a-moll eftir Robert Schumann

Lilja María Ásmundsdóttir 

Píanókonsert í G-dúr eftir Maurice Ravel

Steiney Sigurðardóttir 

Sellókonsert í e-moll eftir Edward Elgar

Stjórnandi tónleikanna er norski hljómsveitarstjórinn Torodd Wigum, staðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar í Þrándheimi og fyrrum aðstoðarhljómsveitarstjóri Fílharmóníusveitarinnar í Bergen.

Tónleikarnir verða fimmtudaginn 15. janúar í Eldborgarsal Hörpu og hefjast kl. 19:30. 

Miðasala er hafin á harpa.is og á sinfonia.is