SAMKEPPNI LISTAHÁSKÓLANS OG SINFÓNÍUHLJÓMSVEITAR ÍSLANDS

Samkeppnin er opin nemendum sem stunda nám í hljóðfæraleik eða söng á 1. háskólastigi (bakkalár) og eru íslenskir ríkisborgarar eða erlendir ríkisborgarar sem hafa verið búsettir á Íslandi í amk eitt ár. Þeir hljóðfæraleikarar og söngvarar eiga rétt til þátttöku sem eru 30 ára eða yngri á árinu sem keppnin er haldin.

Nemendur tónlistardeildar LHÍ sækja um þátttöku á sérstöku eyðublaði á skrifstofu tónlistardeildar LHÍ og skal umsóknin staðfest með samþykki viðkomandi aðalkennara. Nemendur annarra íslenskra tónlistarskóla eru tilnefndir af viðkomandi skólastjórnendum skriflega, eða í tölvupósti. Nemendur er stunda nám erlendis mega sækja sjálfir um þátttöku og skulu samhliða umsókn senda staðfestingu á að þeir stundi nám í hljóðfæraleik eða söng á 1. háskólastigi (bakkalár). 

Við skráningu í keppnina skal tilgreint hvaða verk viðkomandi mun flytja í keppninni. Skilyrði fyrir verkefnavali er að nemandi flytji sömu efnisskrá á tónleikunum og hann flytur í keppninni. Verkefnavalið miðast við hefðbundna hljómsveitarskipan og leikur meðleikari hljómsveitarpartinn í samkeppninni.

Lýsing á verkefnum

a) Hljóðfæraleikarar: Einleiksverk með hljómsveit í fullri lengd. 

b) Söngvarar: Einsöngsverk með hljómsveit að hámarki 25 mín. 

Sigurvegarar keppninnar koma fram á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborgarsal Hörpu í janúar ár hvert.