Laugardaginn 7. nóvember fór fram hin árvissa samkeppni Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Listaháskólans um að fá að koma fram með hljómsveitinni. Þátttakendur voru 12 talsins og stunda þeir allir söng- eða hljóðfæranám á bakkalárstigi.

Dómnefnd var skipuð þeim Árna Heimi Ingólfssyni, sem var formaður, Brjáni Ingasyni, fagottleikara, Sigrúnu Hjálmtýsdóttur, söngkonu, Sigurði Bjarka Gunnarssyni, sellóleikara, Símoni H. Ívarssyni, gítarleikara og Stefáni Jóni Bernharðssyni, hornleikara. 

Dómnefnd valdi fjóra sigurvegara að þessu sinni og munu þau koma fram á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborgarsal Hörpu þann 14. janúar á næsta ári. 

Þetta eru þau:

Heiðdís Hanna Sigurðardóttir, söngkona

Jónas Á. Ásgeirsson, harmonikkuleikari

Ragnar Jónsson, sellóleikari

Sigríður Hjördís Indriðadóttir, flautuleikari

Listaháskóli Íslands óskar sigurvegurunum hjartanlega til hamingju og þakkar jafnframt öllum þeim hæfileikaríku söngvurum og hljóðfæraleikurum sem tók þátt í þessari erfiðu keppni.

Myndin með fréttinni er af Björgu Brjánsdóttur, en hún kom fram á tónleikunum Ungir einleikarar með Sinfóníuhljómsveit Íslands í janúar 2014.

 

Tónleikarnir verða fimmtudaginn 14. janúar í Eldborgarsal Hörpu og hefjast kl. 19:30. 

Miðasala er hafin á harpa.is og á sinfonia.is