Nemendur í vöruhönnun tóku í byrjun maí þátt í vinnustofunni Traditions and Innovations í Tallin þar sem viðfangsefnið var pergament. Vinnustofan var hluti af þriggja ára samstarfsverkefni sem hófst árið 2015. Auk Listaháskóla Íslands taka þátt í verkefninu University of Lappland og Estonian Academy of Arts, en verkefnið er styrkt af Cirrus samtökum hönnunarháskóla á Norðurlöndunum.

Fyrstu dagarnir fóru í að læra að verka skinnið en notast var við hreindýra-, kálfa-og lambskinn. „Við lærðum um pergament, eða parchment, frá a til ö,“ segir Birta Rós Brynjólfsdóttir, nemandi á þriðja ári sem fór til Tallin ásamt þremur samnemendum sínum. Pergament (e. parchment) er einnig kallað bókfell en viðfangsefni nemendanna var að nota sögulegar aðferðir við að vinna skinn svo úr yrði efnið sem við þekkjum úr skinnhandritunum. „Fyrst kynntumst við þeim aðferðunum og síðan gerðum við okkar eigin tilraunir. Við skoðuðum hvernig við gætum nýtt efnið, meðhöndlað það og gerðum tilraunir með að breyta því, hafa áhrif á yfirborð þess eða lita.“

„Pergamentið er mjög skemmtilegt efni, það hefur þann eiginleika að það er hægt að bleyta það og þurrka endalaust án þess að það skaði það neitt. Svo var bara geggjað að læra að verka skinn á þennan hátt.“

Fjórir nemendur tóku þátt ásamt leiðbeinendum frá hverjum þátttökuskóla en auk þess gátu 10 nemendur annarstaðar að á Norðurlöndunum sótt um. Þannig tóku 22 nemendur frá átta löndum þátt í verkefninu. „Við vorum að vinna allan daginn meðal annars í klausturgarði á vegum úkraínskrar menningarmiðstöðvar. Við náðum því ekki að skoða borgina mikið en við kynntumst gamla bænum aðeins sem er ótrúlega fallegur en hann er á heimsminjaskrá UNESCO.“

Garðar Eyjólfsson, fagstjóri í vöruhönnun, og Tinna Gunnarsdóttir, vöruhönnuður og aðjúnkt, fylgdu nemendunum út en Tinna á heiðurinn af bæði myndskeiðinu og myndunum sem hér sjást. Næsta vor mun vinnustofan fara fram hér á landi en þá verður viðfangsefnið hrossaafurðir í víðasta skilningi þess orðs.