Kl. 18.30 Finnland (2. mars)

 

 

Berglind María Tómasdóttir og Lilja María Ásmundsdóttir fluttu Variations II eftir John Cage fyrir Lokk og Huldu.
Verkið er sett upp sem grafískt skor og getur verið fyrir hvaða hljóðfærasamsetningu sem er. Verkið samanstendur af ellefu gegnsæjum blaðsíðum, á sex blaðsíðum er ein bein lína og á fimm er einn punktur. Þessum gegnsæju blaðsíðum er síðan raðað saman þannig að úr þeim myndast ein heild sem flytjandinn vinnur út frá.  Berglind María og Lilja María fluttu verkið í eigin útsetningu fyrir Lokk og Huldu, hljóðfæri sem þær hafa sjálfar hannað og þróað.
 
Hljóðfærið Lokkur er sett saman úr gömlum rokk og langspili og smíðað af Berglindi Maríu Tómasdóttur í félagi við Jón Marinó Jónsson fiðlusmið og Auði Alfífu Ketilsdóttur. Útgangspunkturinn var að búa til ímyndað sögulegt hljóðfæri og ljá því sögusviðið Nýja-Ísland í Norður-Ameríku einhvern tímann snemma á 20. öldinni. Við framsetningu á Lokknum hefur áhersla verið lögð á að kynna hljóðfærið eins og um menningararf sé að ræða; hljóðfærið hafi tilheyrt menningu fyrri tíma og hafi þar af leiðandi merka þýðingu fyrir okkur í dag. Síðan hljóðfærið leit dagsins ljós hefur það verið til sýnis á Árbæjarsafni en einnig hafa nýjar tónsmíðar fyrir Lokk verið fluttar á Listahátíð í Reykjavík, Sumartónleikum í Skálholtskirkju og nú síðast á Norrænum músíkdögum í Reykjavík, þar sem sérstakt málþing um Lokkinn fór jafnframt var.
 
Lilja María smíðaði frumgerð hljóð- og ljósskúlptúrsins Huldu vorið 2013. Hulda er strengjahljóðfæri með innbyggðum ljósabúnaði. Ljós skúlptúrsins eru tengd við örtölvu sem túlkar tíðni tónanna og sendir skilaboð til ljósanna. Þannig kviknar á mismunandi lituðum ljósum eftir því hvernig leikið er á hljóðfærið. Ljósin varpa síðan breytilegri mynd yfir á vegg. Markmiðið var að búa til skúlptúr sem hægt væri að nota til að búa til myndlist sem í eðli sínu svipar til tónlistar að því leytinu til að hún tekur stöðugum breytingum. Hugmyndin var að með skúlptúrnum yrði skapaður vettvangur fyrir tilraunastarfsemi listamanna úr mismunandi listgreinum. Sumarið 2016 hlaut Lilja María styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að þróa hljóðfærið frekar undir handleiðslu Berglindar Maríu og Jóns Marinós Jónssonar, fiðlusmiðs. Verkefnið var eitt af fimm verkefnum sem hlaut tilnefningu til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands 2017.
 
Berglind María Tómasdóttir er flautuleikari og tónskáld sem vinnur þvert á miðla. Í verkum sínum leitast hún við að kanna ímyndir og erkitýpur sem og tónlist sem félagslegt fyrirbæri. Sem flautuleikari hefur Berglind komið fram á hátíðum víðs vegar í Bandaríkjunum og á Íslandi. Hún hefur jafnframt leikið inn á fjölda hljóðrita, meðal annars sem einleikari ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Vladimir Ashkenazy. Verk Berglindar hafa meðal annars verið pöntuð og flutt á vegum Flautusamtaka Bandaríkjanna (The National Flute Association), Norrænna músíkdaga, Myrkra músíkdaga og Listahátíðar í Reykjavík. Berglind stundaði nám í flautuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og Konunglega danska konservatoríið og lauk doktorsprófi í flutningi samtímatónlistar frá Kaliforníuháskóla í San Diego árið 2013. Berglind er dósent við Listaháskóla Íslands.
 
 
Lilja María Ásmundsdóttir lauk B.Mus.-prófi í píanóleik vorið 2016 frá Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Peters Máté. Áður stundaði hún nám við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar hjá Þórunni Huldu Guðmundsdóttur. Hún lauk framhaldsprófi þaðan vorið 2013 samhliða því að ljúka stúdentsprófi af myndlistarbraut frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ þar sem lokaverkefni hennar var frumgerð hljóð- og ljósskúlptúrsins Huldu. Síðasta sumar hlaut hún styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að þróa skúlptúrinn, en verkefnið var eitt af fimm verkefnum tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Lilja var einn af fjórum sigurvegurum í keppninni Ungir einleikarar og lék í kjölfarið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands í janúar 2015. Haustið 2016 var Lilja í starfsnámi hjá píanistanum Sarah Nicolls í Brighton þar sem þær unnu saman að hugmyndum tengdum innsetningum og hljóðskúlptúrum.
hulda_hljodskulptur.jpeg
Hulda
lokkur_bmt.jpg
Lokkur