Laugardaginn 18.mars klukkan tvö verða haldnir útskriftartónleikar Snæbjargar Guðmundu Gunnarsdóttur, sópran. Hún er að útskrifast með diplóma í klassískum söng frá Listaháskóla Íslands. Kennarar hennar eru Þóra Einarsdóttir, Ólöf Kolbrún Harðardóttir og Kristinn Sigmundsson. Snæbjörg heldur í masternám í Staatliche Hochschule für Musik und Darstellende Kunst í Stuttgart, Þýskalandi Hjá prof. Sylvíu Konza í byrjun apríl á þessu ári. Dagskráin á tónleikunum er samblanda af nútíma tónlist, óperu aríum, ljóðasöng og kammertónlist. Flytjendur eru Selma Guðmundsdóttir píanó, Alejandra P.De Ávita píanó, Kristín Jóna Bragadóttir klarinett og Sigríður Hjördís Indriðadóttir þverflautu.

 

Snæbjörg Guðmunda Gunnarsdóttir hóf söngnám 19 ára gömul á Selfossi hjá Eyrúnu Jónasdóttur í Tónsmiðju Suðurlands og ári síðar í Söngskóla Reykjavíkur hjá Írisi Erlingsdóttur þar sem hún lauk 8.stigi í söng. Í vor útskrifast Snæbjörg  með Diploma frá Listaháskóla Íslands þar sem Þóra Einarsdóttir er aðalkennari hennar, ásamt Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og Kristni Sigmundssyni.

Með nemendaóperu Söngskólans í Reykjavík fór hún með hlutverk Adele í Leðurblökunni eftir Johann Strauss. Í Listaháskólanum hefur hún leikið Ännchen úr Töfraskyttunni eftir Carl Maria von Weber, Ilíu úr óperunni Idomeneo, Paminu úr Töfraflautunni eftir Mozart, Mucetta úr óperunni La bohème eftir Puccini og Mimi úr gamanóperunni Vert- Vert eftir Jacues Offenbach. Að auki hefur hún flutt nútímatónlist og tekið þátt í verkefnum með ungum tónskáldum  Listaháskólans, þá helst með Alejöndru P.De Ávita, Birgit Djupedal, Björn Jónsson og Davíð Sighvatsson Rist, Pétur Eggertsson og Hafsteinn Þráinsson. Snæbjörg hefur sungið með kór Listaháskólans hjá Sigurði Halldórssyni og í kvennakórnum Söngspírur hjá Írisi Erlingsdóttur.

Snæbjörg heldur í masternám í Staatliche Hochschule für Musik und Darstellende Kunst í Stuttgart, Þýskalandi. Hjá prof. Sylvíu Konza í byrjun april á þessu ári.