Síðasta Kvöldmáltíðin er sviðslistaverk í formi gönguferðar undir listrænni stjórn Steinunnar Knútsdóttur forseta sviðslistadeildar, Rebekku Ingimundardóttur og Halls Ingólfssonar, en hin tvö síðarnefndu eru stundakennarar við deildina. 

 

Verkið leiðir áhorfandann, einn í einu,  til móts við eigin lífsgildi og lífsstíl um leið og það beinir sjónum að samfélagslegum álitamálum. Það er einskonar ratleikur hugleiðinga eða upplifunarganga sem býður gestum að sjá sína eigin sögu og eiga fund við sjálfan sig í gegnum áleitnar spurningar og frásagnir annarra. 

Hver ganga er kortlögð í kringum sögu og andrúmsloft hvers staðar fyrir sig og unnin upp úr viðtölum við íbúa á öllum aldri. Þá er framkvæmdin í nánu samstarfi við íbúa í hverju byggðarlagi þar sem hún er flutt. Þá sér til dæmis leikfélag Keflavíkur um framkvæmd verkefnisins í Reykjanesbæ. 

Markmið verkefnisins er að kafa ofan í lífsgildi fólks á svæðum þar sem er atgervisflótti eða aðrar sviptingar, jákvæðar sem og neikvæðar - eftir því hvernig á það er litið. Verkinu er ætlað að skoða og draga fram hugmyndir íbúa þessara svæða um gott líf, hvað skipti mestu máli. Eru þær hugmyndir sameiginlegar öllum manneskjum?

Verkið beinir umfram allt sjónum að hinu almenna og sammannlega og miðar að því að spegla líf og gildi hvers áhorfanda fyrir sig - Hvernig væri þín síðasta kvöldmáltíð? Hverjir væru með þér?

Verkið verður flutt á fjórum stöðum á Íslandi á Skírdag, 13. apríl 2017:  Á Raufarhöfn, Bolungarvík, Höfn í Hornafirði og í Keflavík. 

Gestir bóka sig á tíma og mæta einir í um 80 mínútna gönguferð þar sem á vegi þeirra verða spurningar, vangaveltur, hugvekjur og brot úr frásögnum af lífi og gildum annarra. 

Opið öllum endurgjaldslaust frá sólarupprás til sólarlags.