Tónlistarhátíðin Ung Nordisk Musik, Reykjavík 2017
14. - 19. Ágúst 
Harpa, Fríkirkjan, Norræna Húsið, Húrra, Skálholtskirkja, Listasafn Íslands, Listaháskóli Íslands
 
Ungir tónsmiðir af Norðurlöndunum koma saman í Reykjavík 14. - 19. ágúst næstkomandi í tilefni af hinni árlegu tónlistarhátíð Ung Nordisk Musik. Yfirskrift hátíðinnar verður að þessu sinni Music and Space, en alls taka 35 tónskáld þátt í hátíðinni sem færist á milli Norðurlandanna á hverju ári.
 
Sjö tónleikar verða haldnir yfir vikuna, auk tveggja fyrirlestra á vegum tónskáldanna Önnu Þorvaldsdóttur og Raviv Ganchrow. 
 
Hátíðin hefur verið haldin frá 1946, en haldið var upp á 70 ára afmæli UNM í Árósum í fyrra. Hátíðin í ár er að haldin í samvinnu við tónlistardeild Listaháskóla Íslands.
Verkin á hátíðinni eru af ýmsum toga og má þar heyra tónlist sem ferðast inn og út fyrir öll möguleg tónlistarform.
 
Meðal verkanna 35 sem má sjá og heyra verður innsetning fyrir uppmagnaðar ljósaperur, verk fyrir kór og rafhljóð og verk fyrir einleikara á þurrís.
Hátíðin sýnir þverskurð af því nýjasta sem er að gerast hjá ungum tónskáldum, og er hvert verk sérvalið af dómnefnd til þáttöku á hátíðinni.
 
Tónskáldin sem voru valin til að taka þátt í ár fyrir Íslands hönd eru þau Sigrún Jónsdóttir (SiGRÚN), Pétur Eggertsson, Bára Gísladóttir, Finnur Karlsson, Sigurður Árni Jónsson, Ingibjörg Friðriksdóttir og Halldór Smárason. Tónleikar munu fara fram víðsvegar - í Hörpu, Fríkirkjunni, Norræna Húsinu, Húrra, Skálholtskirkju og Listasafni Íslands. Aðgangur að öllum viðburðum er ókeypis.
 
Dagskrá hátíðarinnar má finna á: www.ungnordiskmusik.is