Gestur föstudagsfyrirlestraraðar tónlistardeildar að þessu sinni er Arna Kristín Einarsdóttir.

Í fyrirlestrinum mun Arna Kristín kynna starfsemi Sinfóníuhljómsveitarinnar,ræða stöðu hljómsveitarinnar í íslensku samfélagi og hverjar helstu áskoranirnar eru í rekstri og listrænni framþróun hljómsveitarinnar. Í fyrirlestrinum verður jafnframt farið yfir hlutverk hljómsveitarinnar og litið til framtíðar varðandi listformið og starfsemi sinfóníuhljómsveita.

 

Arna Kristín Einarsdóttir hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá 2013 og var nýlega endurráðin til ársins 2021. Áður starfaði Arna Kristín sem tónleikastjóri hljómsveitarinnar frá 2007 og hefur því staðið í stafni hljómsveitarinnar í um 10 ár. Arna Kristín Einarsdóttir útskrifaðist með einleikarapróf á flautu frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1990 og lagði stund á framhaldsnám í flautuleik bæði í Bloomington Indiana University í Bandaríkjunum og Royal Northern College of Music í Manchester. Arna Kristín starfaði sem flautuleikari um árabil, bæði á Englandi og Íslandi og var á samningi hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands sem 2. flautuleikari frá 2000-2004. Arna Kristín er með meistaragráðu í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst og sækir um þessar mundir diplómanám í Samningatækni og sáttamiðlun við sama skóla.

Allir hjartanlega velkomnir!