Starfsmenn myndlistardeildar Listaháskólans meðal styrkhafa úr seinni úthlutun Myndlistarsjóðs 2017.

Við síðustu úthlutun Myndlistarsjóðs hlutu verkefni á vegum starfsmanna myndlistardeildar Listaháskólans styrki. Deildin leggur ríka áherslu á að kennarar og starfsfólk sé almennt virkt og starfandi innan myndlistarsenunnar.

Hekla Dögg Jónsdóttir prófessor við myndlistardeild hlaut 1.000.000 kr styrk fyrir verkefnið Evolvement. Hekla Dögg er í rannsóknarleyfi nú á haustönn við undirbúning einkasýningar sinnar. 

Bjarki Bragason, lektor og fagstjóri bakkalárnáms við myndlistardeild hlaut 700.000 kr. styrk fyrir verkefnið And the thing is. En Bjarki er sýningarstjóri samsýningar á verkum Elísabetar Brynhildardóttur, Evu Ísleifsdóttur, Claudiu Hausfeld og Sindra Leifssonar. Þess má geta að Claudia starfar við ljósmyndaver myndlistardeildar og Sindri gegnir stöðu verkefnastjóra við deildina. Sýningin opnar í Skaftfelli þann 2. desember. 
 
Gjörningaklúbburinn hlaut 400.000 kr styrk fyrir verkefnið Love Songs en hann skipa myndlistarmennirnir Eirún Sigurðardóttir, Jóní Jónsdóttir og Sigrún Hrólfsdóttir deildarforseti myndlistardeildar.
 
Sigurður Atli Sigurðsson hlaut þar að auki 125.000 kr styrk fyrir verkefnið Prám studios. En Sigurður starfar sem umsjónarmaður verkstæðis og þjónustufulltrúi myndlistardeildar.
 
Myndlistarráð úthlutaði að þessu sinni 17 milljónum króna í styrki til 34 verkefna. Sjóðnum bárust 84 umsóknir og sótt var alls um 63, 6 milljónir króna. 
 
Við óskum öllum þeim sem hlutu styrk að þessu sinni innilega til hamingju.
 
Hlutverk Myndlistarsjóðs er að efla íslenska myndlist með fjárhagslegum stuðningi og stuðla þannig að framgangi listsköpunar, kynningu og aukinni þekkingu á íslenskri myndlist. Myndlistarsjóður heyrir undir Myndlistarráð og starfar samkvæmt myndlistarlögum og eftir reglum sem mennta- og menningarmálaráðherra setur. Sérskipaðar matsnefndir meta umsóknir og gera tillögur að úthlutun.

ILC.jpg
Gjörningaklúbburinn.
print_and_friends_8_preview.jpg
Sigurður Atli Sigurðsson. 
Eva Ísleifsdóttir, skissa að verki.
Eva Ísleifsdóttir, skissa að verki.