Borghildur Tumadóttir

Temja og ótemja

Einkasýning Borghildar Tumadóttur opnar fimmtudaginn 12. október kl.17:00 – 19:00 í Naflanum, Laugarnesvegi 91. Sýningin er í röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist.

Sýningin er innsetning sem samanstendur af skúlptúrum gerðum úr köðlum, málningu, lakki, og fleiri efnum. Þeir eru hengdir á veggi og á snúru sem strengd er yfir rýmið. Vegna sinnar löngu, mjóu og sveigjanlegu lögunar geta skúlptúrarnir tekið á sig ýmis form og fúnksjónir. Teikningin sem þeir mynda í rýminu er afgerandi þáttur í innsetningunni, einnig samspilið milli þeirra og samspil þeirra við umhverfið. Annar mikilvægur þáttur er komposition og flæði. Verkin mynda ákveðinn sequence eða rytma, sem hver fyrir sig getur lesið á sinn hátt. Þegar betur er að gáð, eða kannski strax í upphafi, tekur maður eftir því að hlutirnir líkjast svipum. Þeir taka þó á sig ýmis form, og liggja ekki allir svo nálægt svipuforminu. Teikningar sem tengjast hreyfingu svipu eru dregnar beint á veggina. Fyrirbærið svipa hefur mjög ákveðnar tengingar í hugarheimi fólks. Hún er hlaðin merkingu um stjórnun og aga. Hún er þó í grunninn verkfæri sem hægt er að nota á marga vegu. Hér er gerð tilraun til að nota hana sem hugmynd að innsetningu. Sýningin sprettur út úr hugsunum mínum um ýmsar andstæður, svo sem innsæi og viðteknar hugmyndir, hið praktíska og hið fagurfræðiega, stjórnun og óreiðu. Í huga mér fá þessar hugsanir form riddara sem ferðast á milli siðmenningar og sögulegs samhengis annarsvegar og hins ótamda og óáþreifanlega hins vegar. Þessar pælingar eru etv sprottnar út úr kenningum Platons um sálina í formi vagnstjóra og tveggja hesta, og líkingu Freuds um hugann sem reiðmann. Í vinnslu verkanna leitaðist ég við að vinna sem mest á praktískum, lausnamiðuðum forsendum, og vildi sjá hvort það mundi ekki leiða af sér eitthvað fagurfræðilega áhugavert um leið. Gæti ekki verið að innsæið sjái um þann þátt alveg sjálfkrafa.

Facebook viðburður hér

borghildur_tumadottir.png
 

Á tímabilinu 5. október – 3. desember stendur yfir röð 23 einkasýninga nemenda á 3. ári við myndlistardeild Listaháskólans.

Á hverjum fimmtudegi á tímabilinu opna í senn þrjár einkasýningur í mismunandi sýningarýmum skólans í Laugarnesi, í Naflanum sem er í miðju húsinu, Kubbnum á annarri hæð og Huldulandi sem er innst í húsinu, sem þekkt er fyrir langa ganga og ranghala. Einn nemandi mun sýna í fyrrverandi söluturninum við Sunnutorg á Langholtsvegi 70. Sýningaropnanir eru á fimmtudögum kl. 17-19 og eru allir velkomnir.

Á föstudögum kl. 15 (nema annað sé auglýst) fara fram leiðsagnir um sýningarnar þar sem nemendur segja frá verkum sínum. Almennt byrjað í Nafla.

Einkasýningar nemenda eru liður í námskeiðinu Vinnustofur prófessora, í umsjón Bjarka Bragasonar. Leiðbeinendur ásamt Bjarka eru Unnar Örn og Anne Rombach. Juliane Foronda sinnir aðstoðarkennslu en gestir í námskeiðinu hafa verið Nadim Samman, Werner Herzog og Sigrún Sirra Sigurðardóttir.