Cargo, útskriftarverkefni Björns Steinars Blumenstein og Johonnu Seeleman úr vöruhönnun við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands hefur verið valið til þátttöku á World Design Event (WDE) sem fram fer dagana 20. – 29. október í Eindhoven í Hollandi. Þau munu kynna verkefni sitt í dag, 20. október, á jómfrúarráðstefnu Antenna, en á morgun hefst síðan Dutch Design Week. Fylgjast má með ráðstefnunni í heild sinni á slóðinni http://antenna.foundation.
 
Verkefnið Cargo vakti sérstaka athygli aðstandenda Antenna sem er nýr alþjóðlegur og gagnvirkur vettvangur sem brúar bilið milli útskrifaðra hönnunarnema, fagfólks og sérfræðinga og þjónar því hlutverki að leita uppi unga hönnuði með fersk sjónarhorn á framtíð hönnunar. Að baki Antenna standa Hollenska hönnunarvikan (Dutch Design Week) og Design Indaba en starfsfólk á þeirra vegum sá um öll samskipti við Listaháskóla Íslands og völdu verkefnið til þátttöku. Alls urðu tuttugu hönnunarnemar frá mörgum af fremstu hönnunarháskólum heims fyrir valinu. 
 
Björn Steinar og Johanna, bæði búsett í Eindhoven í Hollandi, eru vinir sem útskrifuðust með sameiginlegt lokaverkefni frá Listaháskóla Íslands, 2016. Þau eru ekki hönnunarteymi, en hafa gaman af því að vinna að sameiginlegum verkefnum og deila áhugasviði og skoðunum á hönnun í víðu samhengi. 
 
Af þessu skemmtilega tilefni tókum við Björn Steinar og Johonnu tali og spurðum þau nánar út í verkefnið.
 
Hvað er Cargo?
Cargo er innsetning þar sem viðhorf til hversdagslegra hluta er endurskoðað. Flókið kerfi farmflutninga á heimsvísu, sem hefur gjörbreytt lifnaðarháttum okkar, var tekið til athugunar. Hönnun snýst yfirleitt um að gefa hlutum form, frekar en að kanna samhengi hluta og aðstæðna. Verkefnið býður upp á óhefðbundið sjónarhorn á hönnun þar sem það tekur fyrir heildarmynd vöruflæðis í alþjóðlegu kerfi farmflutninga.
 
Við lærðum [...] að í miðju kerfisins, sem gerir nútíma lifnaðarhætti okkar mögulega, er einfaldur stálflutningagámur. Þegar hann var staðlaður árið 1969, gat gámurinn passað á hvaða skip, hvaða lest og hvaða flutningabíl á heimsvísu, sem hraðaði og auðveldaði efnisflæði um heiminn gífurlega. Nú eru allar vörur bara einum skipsfarmi í burtu.
 
Hvernig þróaðist verkefnið?
Verkefnið hófst með fullum ruslagámi af bönunum í Reykjavík. Vörur á borð við banana birtast neytendum daglega, svo þeim er auðvitað tekið sem sjálfsögðum hlutum. Það að finna gríðarlegt magn af bönunum reglulega í gámum fékk okkur til að íhuga alvarlega samhengi þeirra. Þegar við litum í kringum okkur gátum við loksins séð að nánast ekkert í okkar nánasta umhverfi átti uppruna að rekja til Íslands. Það varð til þess að við fórum virkilega að spá í uppruna hluta.
 
Í kjölfarið fórum við á fund ýmissa innflytjenda til að öðlast betri innsýn í ferli farmflutninga. Við lærðum af samræðunum að í miðju kerfisins, sem gerir nútíma lifnaðarhætti okkar mögulega, er einfaldur stálflutningagámur. Þegar hann var staðlaður árið 1969, gat gámurinn passað á hvaða skip, hvaða lest og hvaða flutningabíl á heimsvísu, sem hraðaði og auðveldaði efnisflæði um heiminn gífurlega. Nú eru allar vörur bara einum skipsfarmi í burtu.
 
Í framhaldi ákváðum við að ál og þorskur yrðu fulltrúar Íslands í farmflutningakerfinu, þar sem báðar afurðir spila veigamikinn þátt og vildum við skapa hluti sem væru einskonar „made-in“ miðar sjálfs sín, hluti sem innihalda ekki eingöngu sögu um samsetningu eða uppruna efna, heldur einnig ferðasöguna. Í raun erum við að hlutgera rannsóknina með því að segja sögu í gegnum nokkra hluti. Þannig rekur „made-in“ miðinn framleiðslusögu áldósarinnar - frá því að rauður steinn er grafinn upp í Brasilíu, til Norðuráls á Grundartanga, sjóleiðina til Rotterdam og með viðkomu í ýmsum borgum og höfnum - Dusseldorf, Immingham, Luton - áður en framleiðsluferlinu líkur og appelsíni er fleytt á dósina uppi í Ártúnsholti. 
 
Verkefnið byrjaði með einföldum spurningum; hvaðan eru hlutirnir sem eru allt í kringum okkur? Hvað er það sem gerir nútíma lifnaðarhætti okkar mögulega? Í kjölfarið vaknaði mikill áhugi á því sem gerist á milli framleiðslu og neyslu, gleymdu stöðunum sem eru sjaldan teknir inn í jöfnuna.
 
 
Við höfum trú á að ítarlegri upplýsingar geti stuðlað að breyttu hugarfari gagnvart hlutum sem við höfum lært að taka sem sjálfsögðum.
Hvaða áhrif vonist þið til að hafa með verkefninu?
Markmið verkefnisins er að varpa ljósi á það sem gerist á milli framleiðslu og neyslu, auk hlutverks farmflutninga. Hlutirnir í innsetningunni voru hannaðar til að vera boðberar eigin sögu. Cargo leggur til nýjan „made in“ miða, sem er hluturinn sjálfur. Rakið er ferðalag tveggja fulltrúa Íslands, áls og fisks, þvert yfir landamæri og heimsálfur á leið að áfangastað, og er tengslanet ólíkra landa sem tengjast í gegnum farmflutninga hlutgert.“
 
Það liggur í augum uppi að hefðbundinn „made-in“ miði missir marks á öld alþjóðlegra farmflutninga, og að tímabært sé að endurhugsa tilgang miðans. Fullnægir hann þörfum einhvers annars en iðnaðarins? Hvernig myndi „made-in“ miði líta út fyrir flókinn hlut á borð við tölvu, sem getur átt uppruna að rekja til allra heimsálfa samtímis?
 
„Made-in“ miðinn okkar er tillaga að raunverulega upplýsandi miða. Við höfum trú á að ítarlegri upplýsingar geti stuðlað að breyttu hugarfari gagnvart hlutum sem við höfum lært að taka sem sjálfsögðum.
 
 
WDE er alþjóðlegur viðburður sem blásið er til í fyrsta skipti í ár af hollenska hönnunarsjóðnum Dutch Design Foundation og Eindhoven Hönnunarborg (Design City Eindhoven), með það að markmiði að skapa vettvang fyrir hönnuði framtíðarinnar, hvaðanæva að úr heiminum. Hér að neðan eru slóðir inn á heimasíðu WDE auk útskriftarverkefnis Björns Steinars og Johonnu og heimasíðu verkefnisins.
 

Cargo á Vimeo

 

Heimasíða verkefnisins

 

Útskriftarverkefnið úr vöruhönnun

 

World Design Event