Thomas Pausz, fagstjóri í meistaranámi í hönnun við Listaháskóla Íslands ferðaðist síðastliðið haust til Bangalore í Indlandi þar sem hann tók þátt í verkefni á vegum listaháskólans Srishti Instute of Arts, Design and Technology, sem sýnt var á hátíð á vegum skólans, Srishti Live 2017. Þar fá nemendur tækifæri til að vinna með alþjóðlegum hópi kennara í skapandi umhverfi með það fyrir sjónum að má út mörk lista og vísinda, hugvísinda og hönnunar, gjörninga og heimspeki, stafrænnar tækni og handverks, ímyndunar og veruleika.
 
Ásamt þverfaglegum hópi starfsfólks og nemenda skólans stóð Thomas fyrir verkefni sem kallast Bio-Theatre, sem þýða mætti Líffræði-leikhús. Hópurinn rannsakaði heim líffræðinga og umhverfisefnafræðinga sem stunda rannsóknir á skordýrum við líffræðisetrið NCBS (National Cente for Biological Sciences) í Bangalore.
 
„Lykilspurningin með verkefninu,“ segir Thomas „er ekki: hvernig geta hönnuðir nýtt sér vísindin með því að setja þau í nýtt samhengi og kalla það hönnun – sem er mikið í tísku þessa dagana. Þvert á móti er lykilspurningin þessi: Getur hönnun veitt rannsóknum vísindanna innblástur?“
screen_shot_2017-12-06_at_13.01.56.png
 

Bio-Theatre hófst sem skapandi samtal við Dr. Shannon Olson og hennar fólk við tilraunastofuna Naturally Inspired Chemical Ecology Lab við lífræðisetrið NCBS segir Thomas. Á tilraunastofunni er fengist við viðfangsskynjun (e. object perception) skordýra og reynt að skilja hvernig ólíkar tegundir skynja viðföng eða hluti. „Þessar tilraunir á skynjun skordýra minna um margt á rannsóknir Jakob von Uexküll á lífheimi (e. Umwelt) dýra á fyrri hluta 20. aldar,“ bendir Thomas á og bætir við: „Til dæmis fékkst rannsóknarteymið, sem skipað er líffræðingum og umhverfisefnafræðingum, við að endurgera lyktarviðföng (e. odour objects) auk þess sem verið var að skapa umhverfi í sýndarveruleika fyrir flugur.“

 
Teymið sem Thomas leiddi fékk það verkefni að búa til róttækar nýjar gerðir af blómum eða öllu heldur ekki-blómum (e. non-flowers) sem vísindamennirnir gætu notað í tilraunum á skynjun blómsveifunnar (e. hoverfly). Með aðstoð ýmissa aðferða við að brjóta niður formgerðir blóma, gátu hönnuðirnir aðstoðað við að afmarka þá þætti í viðfanginu/blóminu sem skordýrið tekur eftir: mynstur útfjólublárra geisla, flatarmálsfræði brotalandslagsmynda (e. fractal geometry) og samþættingu ólíkra skilningarvita, s.s. lykt, lit og hreyfingu.
„Í raun er verið að spyrja þeirrar spurningar,“ bendir Thomas á, „hvernig hanna megi fyrir aðrar tegundir. Þetta er grundvallaratriði sem á erindi bæði við listamenn og hönnuði, því skynjun – sem er rannsóknarefni hönnunar og lista – leggur grunninn að því hvernig við tengjumst heiminum og hvaða skilning við leggjum í hann. Ennfremur er afar áríðandi fyrir framtíð okkar á jörðinni að við finnum leiðir til að starfa með þeim dýrum sem tryggja frjóvgun í plönturíkinu.“
 
Afrakstur verkefnisins var sýningin NON FLOWERS FOR A HOVERFLY, sem í lauslegri þýðingu útleggst sem EKKI-BLÓM FYRIR BLÓMSVEIFUR.  Þar gaf að líta myndskeið sem byggðu á skynjun blómsveifunnar. Fyrir Thomasi er verkefnið hluti af stærri rannsókn hans á hönnun þvert á tegundir (e. inter-species design), en hann hefur meðal annars komið að stofnun samtakanna Northern Bumbling Network og vinnur að undirbúningi á sýningunni Design and Food Systems árið 2019 undir titlinum Shared Greenhouses.
 
„Þetta er í raun áframhald af fyrri rannsóknum mínum á lífheimi dýra, arkitektúr í dýraríkinu og skynjun dýra,“ segir Thomas. „Ég hef áhuga á kenningum um grundvallarhönnun í tengslum við hugtök á borð við Gestalt og Bildung og fyrirbærafræði skynjunar, t.a.m. hjá Merleau Ponty. Ég spegla rannsóknir mínar í rannsóknum þvert á tegundir (e. inter-species research) á borð við þær sem Vincianne Despret, Thomas Nagel og fleiri hafa verið að stunda.“
 
screen_shot_2017-12-06_at_12.47.47.png