Þrír nemendur úr fatahönnun við Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands tóku þátt í Designers Nest 2018, þau María Nielsen, Kristín Karlsdóttir og Guðjón Andri Þorvarðarson. Af þessu tilefni tókum við Maríu Nielsen tali en lokaverkefni hennar frá LHÍ snerist um afbökun á ímynd hinnar fullkomnu húsmóður.
 
27591645_10156148665109468_1675138209_n.jpg
María Nielsen við undirbúning Designers Nest 2018. Hún útskrifaðist síðastliðið vor úr fatahönnun við LHÍ.
 
 
Hvað er Designers Nest?
„Designers Nest er keppni sem er haldin milli tíu fremstu hönnunarskóla Skandinavíu. Keppnin var haldin fyrst árið 2005 og markmið hennar er að verðlauna framúrskarandi fatahönnunarnema. Þetta er ákveðinn stökkpallur inn í atvinnulífið þar sem nemendum gefst færi á að kynna lokaverkefni sín fyrir átta dómurum sem eru allir vel tengdir heimi tísku og hönnunar. Fyrstu verðlaun eru peningaverðlaun sem veita þeim hönnuði möguleika á að þróa enn frekar og kynna línuna sína. Skólarnir sem taka þátt eru frá Finnlandi, Noregi, Íslandi, Svíþjóð og Danmörku.“
 
Hvernig fer keppnin fram?
„Keppnin er haldin tvisvar á ári og þá í tengslum við tískuvikuna í Kaupmannahöfn. Þetta er eins og heill vinnudagur sem fer í þetta en prógrammið byrjar snemma um morgun og er dagskráin mjög þétt yfir daginn þar sem það eru þrjátíu nemendur að sýna, þrír frá hverjum skóla, og hver þeirra þarf að kynna sig og verkefnið sitt fyrir dómnefndinni. Síðan taka við mátanir á módelunum og æfing á sýningunni sjálfri. Hápunktur dagsins er svo sýningin sem er alltaf þéttsetin af blaðamönnum og fólki tengdu tískusenunni í Kaupmannahöfn.“
 
 
look_2.jpg

„Hápunktur dagsins er svo sýningin sem er alltaf þéttsetin af blaðamönnum og fólki tengdu tískusenunni í Kaupmannahöfn.“

 
 
Hvernig var undirbúningi þínum fyrir keppnina háttað?
„Fyrir mig var undirbúningurinn svona að mestu leyti andlegur. Ég fékk að vita í desember að ég væri að fara taka þátt í Designers Nest 2018 og þar sem útskriftarsýningin okkar í LHÍ var í maí 2017 þá var línan fullgerð þá. Ég reyndi að fara bara vel yfir vinnuferlið mitt og draga saman þau atriði sem skiptu mestu máli fyrir kjarna línunnar í portfolio svo kynningin væri hnitmiðuð. Það er mjög mikilvægt að vera með þetta eins samandregið og skýrt og hægt er þar sem maður fær aðeins fimm mínútur á sýningardaginn sjálfan til að kynna sig og lokaverkefnið fyrir dómnefndinni.“
 
Um hvað snerist lokaverkefni þitt frá Listaháskóla íslands?
„Rannsóknin í lokaverkefninu mínu snerist um afbökun á ímynd hinnar fullkomnu húsmóður. Ég skoðaði hlutverk konunnar og húsmóðurinnar á sjötta og sjöunda áratugnum og hvað það hlutverk er fjarlægt raunveruleikanum í dag. Hugmyndin um þessa fullkomnu húsmóður er í rauninni orðin blætistengd. Það leiddi mig í að skoða meðal annars japanskar bindingar, shibari, sem notaðar eru bæði í listrænum og erótískum tilgangi. Í línunni kemur þetta fram í grafísku munstri og smáatriðum á flíkunum.“
 
 
look_3.jpg

„Ég skoðaði hlutverk konunnar og húsmóðurinnar á sjötta og sjöunda áratugnum og hvað það hlutverk er fjarlægt raunveruleikanum í dag.“

 
 
En hvaða væntingar eru vegna þátttökunnar?
„Þar sem þetta eru að mestu leyti mastersnemar sem eru að sýna á keppninni þá gerði ég mér ekki væntingar til þessum að vinna verðlaun þarna en ég leit á þetta sem mikilvæga æfingu í því að koma mér á framfæri, kynna mig og verkin mín og hitta aðra unga hönnuði í sömu sporum. Þetta er góður endir á þessu mikla verkefni sem lokaverkefnið í LHÍ er og að sama skapi kveikir þetta í manni löngunina til að halda áfram því það er vissulega mikil viðurkenning að vera boðin þátttaka í Designers Nest.“
 
Hvað er síðan framundan?
„Næst á dagskrá hjá mér er að leggja lokahönd á vef portfolio sem hefur fengið að sitja á hakanum í vetur. Það að fara út á Designers Nest kveikti klárlega í manni að fara skoða MA nám svo þetta fer að skýrast hjá mér með vorinu, hver næstu skref verða.“
 
 
look_1.jpg
„Þetta er góður endir á þessu mikla verkefni sem lokaverkefnið í LHÍ er og að sama skapi kveikir þetta í manni löngunina til að halda áfram því það er vissulega mikil viðurkenning að vera boðin þátttaka í Designers Nest.“