Bára Gísladóttir, tónskáld, kontrabassaleikari og fyrrum tónsmíðanemi við tónlistardeild LHÍ, hlaut á mánudaginn Léonie Sonning verðlaun í flokki sem veitt eru ungum og upprennandi tónlistarmönnum. Alls hlutu tíu ungir tónlistarmenn verðlaunin í ár, þeirra á meðal fiðluleikarinn Vera Panitch sem starfar nú í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Verðlaunaféð er 60.000 krónur danskar (tæp milljón íslenskar krónur). 

Hin virtu Léonie Sonning verðlaun hafa verið veitt starfandi tónlistarfólki frá árinu 1959 en á meðal þeirra sem hlotið hafa verðlaunin eru margir af þekktustu tónlistarmönnum heims, tónskáld og flytjendur á borð við  Igor Stravinsky (1959), Leonard Bernstein (1965), Birgit Nilsson (1966), Olivier Messiaen (1977), Miles Davis (1984),  Sviatoslav Richter (1986), Sofiu Gubaidulinu (1999), Önnu Sophie Mutter (2001) og Ceciliu Bartoli (2010). Handhafi verðlauna í ár er lettneski hljómsveitarstjórinn Mariss Jansons og verðlaunaféð í þeim flokki eru 600.000 krónur.

Bára Gísladóttir útskrifaðist með bakkalárgráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2013 en þar naut hún leiðsagnar Þuríðar Jónsdóttur og Hróðmars I. Sigurbjörrnssonar. Hún stundaði framhaldsnám í tónsmíðum í Mílanó og við Konunglegu tónlistarakademíuna í Kaupmannahöfn þar sem hún stundar nú nám hjá tónskáldunum Jeppe Just Christensen og Niels Rosing-Schow meðfram miklu annríki við tónsmíðar. Á meðal hljómsveita og hljóðfærahópa sem hafa flutt verk Báru má nefna Dönsku þjóðarhljómsveitina, Duo Harpverk, Elektra Ensemble, Adapter-hópinn, Ensemble InterContemporain, Esbjerg Ensemble, Sinfóníuhljómsveitina í Helsinborg, loadbang, Riot Ensemble og Strokkvartettinn Sigga svo fátt eitt sé nefnt. Á Sumartónleikum í Skálholtskirkju næsta sumar mun Nordic Affect frumflytja nýtt verk eftir Báru.

Við óskum Báru Gísladóttur innilega til hamingju með verðlaunin.

Opið er fyrir umsóknir í bakkalárnám í tónsmíðum til og með 9. apríl. Nánari upplýsingar um brautina hér.