Páll Ragnar Pálsson hlaut aðalverðlaun fyrir sellókonsertinn Quake á alþjóðlega tónskáldaþinginu – International Rostrum of Composers – í Búdapest sem fram fór dagana 15.-19. maí.

Quake er sameiginleg pöntun Elbphilharmonie-hljómsveitar norðurþýska útvarpsins og Fílharmóníusveitar Los Angeles. Verkið er samið fyrir og tileinkað Sæunni Þorsteinsdóttur, sellóleikara. Upptakan sem var send í keppnina í Búdapest er frá flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Myrkum músíkdögum í janúar á þessu ári. Stjórnandi þá var Daníel Bjarnason.

Þetta er í fyrsta sinn sem íslensku tónskáldi hlotnast þessi heiður en mörg af allra þekktustu tónskáldum 20. aldarinnar hafa hlotið verðlaunin frá því þau voru fyrst afhent árið 1955. Má þar nefna György Ligeti, Henryk Górecky og Helenu Tulve, sem kenndi Páli Ragnari við nám hans í Eistlandi.

Verkið var innblásið af texta úr úr bók Auðar Jónsdóttur, Stóra skjálfta:

Í þúsundir ára safnaðist upp spenna í kvikunni og hún losnaði á einu augabragði í stórum skjálfta svo bergið undir fótum mér gliðnaði og steingervingar og silfurkristallar brutust upp á yfirborðið, löngu liðnir atburðir grafnir í eldgömul lög af jarðefnum, áður óþekktir hverir gusu og allt sem áður var varð að einhverju nýju, landslagið verður aldrei samt og áður. Ég stari ofan í hyldýpið, sprunguna í lífi sjálfrar mín, og heyri hvernig það brestur allt í kringum mig.

Auður Jónsdóttir. Stóri skjálfti Reykjavík, 2015. bls 242.

Hildur Guðnadóttir var einnig valin á heiðurslista þingsins fyrir verk sitt Point of Departure.