Starfsfólk hönnunar- og arkitektúrdeildar var afar fengsælt þegar styrkjum var úthlutað úr Hönnunarsjóði. Af 86 umsóknum fengu 16 verkefni styrki fyrir samanlagt 22 milljónir króna. Einnig voru veittir 15 ferðastyrkir um samanlagt 1.5 milljónir króna.
 
Jóhann Lúðvík Torfason, Anna María Bogadóttir og Linda Björg Árnadóttir sem kenna við deildina hlutu öll styrk. Jóhann hlaut hálfrar milljónar króna styrk, Anna María hlaut einnar milljónar króna styrk og Linda Björg Árnadóttir einnar og hálfrar milljónar króna styrk. Þá hlaut Grallagerðin, verkefni kennara og nemanda við deildina, sem Búi Bjarmar Aðalsteinsson kennari við vöruhönnunarbraut stendur fyrir, einnar milljónar króna styrk.
 
Einnig voru veittir 15 ferðastyrkir um samanlagt 1.5 milljónir króna en Anna María Bogadóttir, Massimo Santanicchia og Thomas Pausz hlutu öll ferðastyrk frá Hönnunarsjóði. Forsíðumynd fréttar er fengin úr fréttatilkynningu Hönnunarsjóðs.
 
Athugið: Fréttin hefur verið leiðrétt. Það var rangt sem kom fram í fréttinni að Thomas Pausz tæki þátt í að stýra verkefninu Turfiction sem einnig hlaut úthlutun úr sjóðnum. Að verkefninu standa Hildigunnur Sverrisdóttir, Tinna Grétarsdóttir, Sigurjón Baldur Hafsteinsson og Hannes Lárusson. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.