Út er komin bókin Merki & form eftir hönnuðinn Gísla B. Björnsson. Gísli kenndi við braut grafískrar hönnunar um árabil og er brautryðjandi hér á landi á sviði merkjahönnunar. Í bókinni er að finna umfjöllun Gísla um sögu merkjahönnunar auk þess sem hann ræðir um táknfræði, starf hönnuðarins, skjaldamerkjafræði, litanotkun, leturnotkun og ýmislegt fleira sem viðkemur merkjahönnun.
 
 
gisli_kapa_merki_form_2018.jpg
 
Áratugahönnun
Hryggjarstykki bókarinnar eru skissur af teikniborði Gísla þar sem hann vinnur út frá ákveðnum táknum og hugmyndum. Sú vinna hefur í gegnum árin skilað af sér tugum merkja sem mörg eru vel þekkt. Bókin gefur þá einnig ágætt yfirlit yfir þau merki sem Gísli hefur hannað á löngum ferli.
 
Ritstjóri bókarinnar er Bryndís Björgvinsdóttir, lektor við deild hönnunar og arkitektúrs. Aðfararorð skrifar Birna Geirfinnsdóttir fagstjóri í grafískri hönnun. Hönnuður verksins er Ármann Agnarsson ásamt Helga Páli Melsted. Bókin Merki & form er hvoru tveggja verk sem hægt verður að nýta til kennslu við Listaháskólann sem og gagnlegt rit fyrir alla þá sem hafa áhuga á táknum, merkjum, formum – auk þess að gefa yfirlit yfir fimm áratuga hönnunarvinnu og reynslu Gísla B. Björnssonar af merkjahönnun hér á landi. Háskólaútgáfan og Listaháskóli Íslands gefa bókina út og hún fæst meðal annars hjá Háskólaútgáfunni í kjallara aðalbyggingar Háskóla Íslands.