Hönnuðir og arkitektar hafa það hlutverk að breyta til batnaðar – að auka áþreifanleg og óáþreifanleg gæði. Hagnýtir eiginleikar hönnunar, fagurfræði og hugmyndafræði geta haft víðtæk áhrif á umhverfi og samfélag og koma við sögu oft á dag í lífi sérhverrar manneskju. Hönnun og arkitektúr eru ekki afurðir heldur aðferðarfræði sem byggir jöfnum höndum á rannsókn, rökhugsun, afstöðu, fagurfræði, innsæi og ímyndunarafli.

Í Hönnunar- og arkitektúrdeild er lögð áhersla á að nemendur kunni skil á fræðilegum forsendum hönnunar og geti út frá þekkingu sinni tekið ábyrga afstöðu til umhverfis og samfélags. Hönnun snýst að vissu leyti um að koma auga á möguleikana í því sem hefur enn ekki átt sér stað. Nemendur eru því stöðugt hvattir til að leita nýrra lausna og leiða og leggja sérstaka rækt við frumleika, ímyndunarafl og gagnrýninn hugsunarhátt.

Markmið hönnunar- og arkitektúrdeildar

  • að bjóða upp á metnaðarfullt nám og kennslu
  • að þróa lærdómssamfélag kennara og nemenda
  • að þróa þverfagleg samvinnuferli í hönnun
  • að vinna að sjálfbærni
  • að byggja upp rannsóknamenningu sem styður sameiginlega þekkingarsköpun
  • að takast á við samtímaáskoranir í samfélaginu með aðferðafræði hönnunar
  • að koma menningu hönnunar á framfæri sem hreyfiafli í samfélaginu
  • að stuðla að uppbyggilegum breytingum í samfélaginu

Þar sem hönnun er breytingarafl til aukinna lífsgæða er mikil áhersla lögð á að nemendur takist á við þau málefni sem efst eru á baugi í samfélaginu. Miklu skiptir að beina athyglinni að staðbundnum aðstæðum í hnattrænu samhengi og að takast á við þá öfga sem felast í því að búa í fámennu landi með víðáttumikilli og stórbrotinni náttúru. 

Áhersla er lögð á að skilja hefðbundið og sögulegt samhengi fræðigreinanna sem námsbrautirnar tengjast og að bera fram nýjar spurningar um viðeigandi gildissvið, gerð og framleiðsluferli í nútíma-samhengi. Allar faggreinar hönnunar verða að takast á við takmarkaðan aðgang að auðlindum. Nýsköpun þarf því að ígrunda vel og setja í samhengi við kerfisbundna sjálfbærni, að því er varðar nýtingu auðlinda, framleiðsluferla og lífsferil hráefna. 

Samstarf

Hönnun felur ávallt í sér samráð og samvinnu. Við Hönnunar- og arkitektúrdeild er leitast við að efla samtal og samstarf við fjölbreyttan hóp fagaðila og leikmanna, enda er það mikilvægur hluti námsins. Kennarar deildarinnar hafa stofnað til samstarfs við fjölda samtaka, stofnana og fyrirtækja um þróun verkefna sem unnin eru í námskeiðum og rannsóknar- og/eða þróunarverkefnum. Samstarfs-líkön eru margvísleg og í sífelldri þróun og mótun. Samstarf við mismunandi aðila veitir samræðu og samskiptum þann sess sem nauðsynlegur er í öllum samstarfstilraunum í sköpun og þverfaglegri hugsun. 

Nám í hönnun og arkitektúr

Við Hönnunar- og arkitektúrdeild eru í boði fjórar námsbrautir á BA stigi og ein námsbraut á MA stigi. Námsbrautir á BA stigi eru í arkitektúr, grafískri hönnun, fatahönnun og vöruhönnun. BA nám í hönnun og arkitektúr er þriggja ára nám til 180 eininga og skiptist í vinnustofur, fræðinámskeið og tækninámskeið. Nemendur ljúka að jafnaði 30 einingum á önn. Að loknu námi og tilskildum prófum og verkefnum hlýtur nemandi BA gráðu.

BA Arkitektúr

Arkitektúr var í upphafi skilgreindur sem listin að reisa hús og fegra eftir ákveðnum reglum þar sem grunnstoðirnar eru fagurfræði, tæknileg geta og notagildi (venustas, firmitas, utilitas). Í seinni tíð hefur inntak fagsins orðið mun víðtækara og er allt hið manngerða umhverfi til umfjöllunar í arkitektúr þar sem mótun hins einstaka arkitektóníska verks mótar hið sameiginlega; almenningsrýmið. Samhliða því sem viðfangsefni arkitektúrs hafa orðið fjölbreyttari hefur hin samfélagslega ábyrgð og meðvitund aukist og þó svo að inntak fagsins í dag sé nú mun víðtækara en áður eru grunnstoðir þess enn í fullu gildi. Þannig erum við stöðugt að skoða umhverfi okkar og samfélag og draga fram blæbrigði þess með arkitektónískum verkfærum.

BA Fatahönnun

Fatahönnun innan Listaháskóla Íslands byggir á nokkuð langri hefð þar sem aðaláherslan er lögð á framsækni evrópskrar avant-garde tískuhönnunar og kennslu í aðferðafræði við hönnun á fatnaði og fylgihlutum. Námið – eins og tískan sjálf – er mótað af árstíðum, tíðaranda og samfélagslegum aðstæðum hverju sinni en einnig stíl og persónulegri sýn einstaklinga. Í náminu er lögð áhersla á að nemendur tileinki sér fagmennsku og gæði í hönnun, nýti sér tæknimöguleika og það góða handverk sem býðst innan fagsins.

BA Grafísk hönnun

Grafísk hönnun er samþætting myndmáls og tungumáls með það fyrir augum að miðla upp-lýsingum, auka áhrif skilaboða, auka skilning og vekja áhuga fólks. Við Listaháskóla Íslands hefur kennsla grafískrar hönnunar miðað að því að efla fagið ásamt því að hvetja nemendur til þess að láta sig umhverfið og samfélagið varða – og horfa til framtíðar. Áhersla er lögð á að gefa nemendum sem víðasta sýn á fagið með fjölbreyttum námskeiðum þar sem leitast er við að skapa sem flesta snertifleti við margvíslega þætti grafískrar hönnunar. Nemendur kynnast starfandi hönnuðum til að efla tengsl við fagumhverfið, en starfandi hönnuðir sinna margir hverjir starfi stundakennara og fastráðinna starfsmanna við skólann. Þær breytingar og þróun sem eiga sér stað eru settar í samhengi við námið til þess að auka meðvitund nemenda sem hönnuða og þátttakenda í síbreytilegu samfélagi.

BA Vöruhönnun

Efni, tæki og umbreyting eru hugtök sem koma aftur og aftur fyrir í vinnu vöruhönnuða. Lífhringur efna er rannsakaður til þess að vöruhönnuðir séu meðvitaðir um umbreytingu efnis frá uppruna þess og til endaloka. Áhersla er lögð á að dýpka skilning nemenda á þeim áhrifum sem þeir hafa með verkum sínum í stað þess að einblína á notagildi og lokaniðurstöðu. Áherslubreyting samtímans felst í því að spurt er af hverju? frekar en hvernig? Vöruhönnuðurinn setur spurningarmerki við verkferla, endurskilgreinir þá og endurnýjar. Þessum grunni er síðan speglað aftur og aftur á mismunandi snertipunkta hinna ýmsu ferla í gegnum námið.

Kennsla á BA stigi

Markmið með námi í hönnunar- og arkitektúrdeild er að þróa færni nemenda til að hugsa á gagnrýninn og skapandi hátt, setja fram og leysa verkefni, að greina, meta og hugsa upp frumlegar lausnir og tillögur í hönnun og fræðilegum verkefnum. 

Kennsla fer fram í námskeiðum á vinnustofum, verkstæðum og í hefðbundnum kennslustofum þar sem stuðst er bæði við einkaleiðsögn og hópleiðsögn, í fyrirlestrum, málstofum, umræðum og gagnrýni í smærri hópum auk tæknikennslu á verkstæðum deildarinnar. 

Dagleg kennsla fer fram frá kl. 08:30–16:40.

Frá kl. 08:30–12:10 sækja nemendur fræðinámskeið og tækninámskeið. Námskeið eru ýmist fimm, tíu eða fimmtán vikna löng. Hönnunarfræði er mikilvægur þáttur námsins. Lögð er áhersla á gagnrýna og skapandi hugsun nemenda og að nemendur kunni skil á hugmyndafræðilegum forsendum hönnunar og sögulegu samhengi faggreina. Kennsluaðferðir eru í formi fyrirlestra, umræðna og verkefnavinnu. Nemendur vinna stutt rannsóknar- og greiningaverkefni, kynna niðurstöður sínar í kynningum og stuttum fyrirlestrum og vinna með texta, m.a. í ritgerðarskrifum. Í tækninámskeiðum er boðið upp á sérhæfða þjálfun nemenda í samræmi við valda faggrein.

Frá kl. 13:00–16:40 sækja nemendur vinnustofur. Kennslu er skipt niður í mislöng námskeið og geta verið allt frá einni viku og upp í fimmtán vikna námskeið. Vinnustofur eru starfsvettvangur nemenda og kennara. Þar er unnið að margvíslegum verkefnum sem tengjast hönnun undir leiðsögn umsjónarkennara námskeiða. Hver nemandi fær úthlutað eigin vinnuaðstöðu í vinnu-stofu og er ætlast til að nemendur stundi sína vinnu þar en kennarar koma reglulega á vinnustofu og leiðbeina með verkefni. Þarfir námskeiðsins ráða síðan hvernig unnið er í vinnustofunni en gert er grein fyrir kennslufyrirkomulagi og námsmati í upphafi hvers námskeiðs. Námskeiðum lýkur með yfirferðum þar sem nemendur kynna verkefni sín og taka þátt í umræðum með kennurum og utanaðkomandi gestum og öðrum nemendum. 

Nám á BA stigi

Fyrsta ár

Fyrsta ár námsins felst í kynningu á viðfangsefnum og hönnunaraðferðum hverrar greinar. Áhersla er lögð á hugmyndafræðilegan skilning og tæknilega færni sem birtast í fyrstu hönnunarverkum nemenda á vorönn. Nemendur dýpka skilning á eigin verkum og tileinka sér gagnrýnið og skapandi viðhorf á eigin verk og annarra.

Í fræðigreinum er lögð áhersla á hönnunarsögu og menningarfræði auk fræðilegra rannsókna-aðferða. Í tækni-námskeiðum kynnast nemendur notkun forrita og verklegri vinnu á verkstæðum.

Annað ár

Á öðru ári er aukin áhersla lögð á flóknari samfélagsleg viðfangsefni. Í námskeiðum eru ferli samfélagsins rannsökuð og nemendur rannsaka hvernig megi hafa áhrif á tiltekna þætti í sam-félaginu í stærra samhengi. Þverfagleg og skapandi vinnubrögð eru viðfangsefni sameiginlegs námskeiðs allra deilda Listaháskólans um mitt árið.

Í fræðanámskeiðum er áhersla lögð á sérsvið hverrar námsbrautar auk þess sem lögð er áhersla
á samfélagsleg- og menningarfræðileg viðfangsefni, sem og sjálfbærni og umhverfistengda þætti. Í tækninámskeiðum læra nemendur ýmist um notkun eða gerð hugbúnaðar og fá tæknilega þjálfun í samræmi við sína sérgrein.

Þriðja ár

Á þriðja ári leggja nemendur áherslu á samþættingu hönnunar sem byggir á hugmyndaauðgi, færni og þekkingu, og þess er vænst að þeir sýni sjálfstæði í eigin hönnun og verkefnastjórnun. Nemendur ígrunda eigin vinnu með gerð möppu um verk sín, skrifa hönnunargreiningu samhliða lokaverkefni, kynnast faglegu starfsumhverfi auk þess að skrifa fræðilega lokaritgerð. Náminu lýkur með útskriftarverkefni sem er kynnt á sameiginlegri sýningu á Listasafni Reykjavíkur og er hún opin almenningi.

Meistaranám í hönnun

Meistaranám í hönnun er tveggja ára nám til 120 eininga og lýkur með MA gráðu. Námið skapar vettvang fyrir nemendur til að dýpka þekkingu og efla færni til að takast á við fjölþætt hönnunarverkefni sem beina sjónum að viðfangsefnum sem skipta sköpum í samtímanum. Í náminu er lögð áhersla á samþættingu hugvits og fagurfræði, tækni og vísinda til sköpunar efnislegra og huglægra gæða.
Hönnun felur ávallt í sér samvinnu og samráð og skapar meistaranám í hönnun tækifæri til víðtæks þverfaglegs samstarfs. Námið skapar vettvang fyrir nemendur til þróunar mismunandi verkferla og aðferðafræði til að koma hugmyndum í framkvæmd.

Með rannsóknarþjálfun, fræðilegu námi, þátttöku í þverfaglegum málstofum, tæknilegri þjálfun, einstaklings hönnunar- verkefnum og þátttöku í samstarfsverkefnum á vinnustofu eru nemendur búnir undir fjölþætt starf hönnuða.

Umsækjendur skulu hafa lokið BA prófi og æskilegt er að þeir hafi öðlast starfsreynslu á sviði sem tengist starfsvettvangi hönnuða. Umsækjendur þurfa að skila inn skriflegri lýsingu á þeim viðfangsefnum sem þeir vilja leggja áherslu á í MA námi. Við mat á umsóknum er tekið tillit til reynslu umsækjenda í starfi ásamt innsendu frumgerðu efni. Jafnframt eru tekin viðtöl við umsækjendur og í þeim er litið til þess hversu vel megi ætla að viðkomandi geti tileinkað sér námið og aðferðafræði hönnunar. Sérstök inntökunefnd metur umsóknir.

Námið er alþjóðlegt nám sem kennt er á ensku.